12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í C-deild Alþingistíðinda. (3399)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Halldór Steinsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, enda þótt jeg sje samþykkur þeirri stefnu frv., sem kemur fram í því, að vilja koma í veg fyrir, að íslenskir togarar noti loftskeytatæki sín til þess að geta þeim mun óhultari fiskað í landhelgi. Mun jeg því fyrir þessar sakir greiða atkv. með frv., enda þótt jeg sje ekki að öllu leyti ánægður með það.

Það sem jeg þó sjerstaklega er óánægður með, og kom mjer til að skrifa undir nál. með fyrirvara, er greinargerð frv. Mjer finst hún í alla staði ósæmileg, og sverja sig í ætt höfundarins, sem mun vera enginn annar en hæstv. dómsmrh. Í greinargerð þessari segir meðal annars: „Það er sannað með framburði skilríkra manna á Alþingi og utan þings, að sumir íslensku togararnir eru hættulegir landhelgibrjótar, og að þeir leiða heila hópa af erlendum skipum í landhelgina með sjer.“ Hjer er alt of langt farið. Því að það er alls ekki sannað, að íslensku togararnir leiði heila hópa af erlendum skipum í landhelgina með sjer, enda þótt bæði jeg og aðrir, sem um þessi mál hafa talað, hafi sagt, „að það liti helst út fyrir“ eða „lægi grunur á“, að íslensku togararnir gerðu þetta. Um sönnun er alls ekki hægt að tala í þessu efni, nema því að eins, að varðskipin stæðu togarana að þessu. En hjer liggur ekkert slíkt fyrir.

Þá segir ennfremur í greinargerð þessari: „Það er ennfremur kunnugt, að þessi landhelgibrot Íslendinga varpa skugga á löggæslu og jafnvel dómstóla landsins í augum erlendra manna og eru því sannarleg þjóðarsmán og hættuleg sjálfstæði landsins.“ Mjer þykir mjög leitt, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki vera hjer viðstaddur, því að hver hefir frekar en hann varpað skugga á löggæslu og dómstóla landsins bæði í augum innlendra og erlendra manna. Og má í því efni nefna hið svo kallaða „Tervani-mál“, þar sem hæstv. ráðherra hefir gengið svo langt í því að svívirða löggæslu og dómstóla landsins í augum erlendra manna, að slíks munu fá dæmi fyr. Þessi ummæli í greinargerðinni koma því úr hörðustu átt. Annars skal jeg ekki fara að ræða það mál nú. Það hefir þegar verið gert allítarlega í hv. Nd. og víðar.

Þá segir í greinargerðinni: „Þessum landhelgibrotum er beinlínis stjórnað úr landi, eins og einn hinn merkasti útgerðarmaður, sem nú lifir hjer á landi, hefir beinlínis lýst á sjálfu Alþingi. Útgerðarstjórarnir eða þjónar þeirra senda skipunum skeyti um hreyfingar varðskipanna, eftir því sem til vitnast, svo sem þegar þau koma í höfn, og þá um leið eru fleiri eða færri togarar komnir í landhelgina.“

Það mun vera rjett, að Ágúst Flygenring hafi sagt það einu sinni hjer á Alþingi, að það ljeki grunur á, að íslenskir útgerðarmenn notuðu loftskeytatækin til þess að aðvara togara um hreyfingar varðskipanna. En með því er það alls ekki sagt, að slíkt sje almenn regla, en annað er ekki hægt að fá út úr greinargerð þessari. Er þetta því hin hreinasta fjarstæða, sem kemur fram í greinargerðinni hjá hæstv. ráðherra, að togurunum sje alment stjórnað úr landi með landhelgibrotin, enda þótt það sje skoðun mín o. fl., að svo sje ef til vill um einstaka skip.

Svo endar hæstv. ráðherra greinargerðina með þessum orðum: „Það væri fráleitur afkáraskapur, ef hið sama þing, sem hefir látið byggja tvö dýr skip til strandgæslunnar, og veitir fje, sem skiftir hundruðum þúsunda til árlegs rekstrar þeirra, væri svo þróttlaust, að það treystist ekki til að stöðva hina glæpsamlegu notkun loftskeyta hjer við land, móti strandgæslunni, aðeins af því, að einhverjir af lögbrjótunum hafa aðstöðu til að beita ofurkappi í þessu máli í stjórnmálalífi þjóðarinnar.“

Hjer finst mjer, að settar sjeu fram svo óviðeigandi dylgjur, að slíkt megi ekki eiga sjer stað í nokkuru því opinberu skjali, sem kemur fram á Alþingi.

Læt jeg svo þessi orð nægja, en jeg vildi taka þetta fram af því, að mjer finst greinargerðin, eins og hún er stíluð, vera alveg óviðeigandi og ósæmileg.