12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í C-deild Alþingistíðinda. (3400)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Mjer var kunnugt um það áður, á hverju fyrirvari háttv. þm. Snæf. bygðist. En þar sem jeg er flm. frv., þá tel jeg mjer skylt að svara nokkrum orðum ummælum hv. þm. Snæf. út af því, sem stendur í greinargerð frv.

Það liggja fyrir, bæði í Alþingistíðindum og víðar, ummæli ýmsra þeirra manna, er besta þekkingu hafa á því, hvernig framkoma togara, bæði innlendra og útlendra, hefir verið, að því er snertir veiðar í landhelgi, og er tilgangslítið um það að deila.

Öllum ætti að vera það ljóst, að okkur Íslendingum er það ekki vansalaust, að togarafloti okkar sje talinn, með rjettu eða röngu, ekki síður brotlegur við landhelgilögin en þeir útlendu, og er tilgangur þessa frv. aðallega sá, að byggja fyrir að slíku verði haldið fram og gert líklegt einmitt með því, að togararnir noti loftskeytatækin á þann hátt að fá daglega, að svo miklu leyti sem hægt er, fregnir af varðskipunum og ferðum þeirra, og geti þannig veitt í landhelgi án þess að eiga á hættu, að varðskipin taki þá við ólöglegar veiðar. Þessi er aðaltilgangur frv., en ekki sá, að svívirða togaraskipstjóra og útgerðarmenn, svo sem ýmsir andstæðingar þessa frv. hafa haldið fram hjer á Alþingi, undir umræðum um þetta mál í fyrra.

Hitt er víst, að mál þetta hefir verið varið af útgerðarmönnum í Nd. af miklu kappi. Þeir hafa sagt, að frv. þetta væri árás á togaraeigendur. En jeg get ekki sjeð, að svo sje. Jeg held, að framkoma útgerðarmanna hafi gefið tilefni til sumra ummæla í grg. frv. Mjer er kunnugt um það, að útlendingar, t. d. Englendingar, halda því fram, að íslenskir togarar veiði allra togara mest í landhelgi, og segjast hafa verið sjónarvottar að því, hvað eftir annað. Jeg skal ekki segja um, hvort þetta er satt. En það er almenningsálit, að nokkrum hluta togaraflotans íslenska hætti við að fara inn fyrir landhelgilínuna. í mínu hjeraði er t. d. full vissa fyrir því, enda þótt ekki sje hægt að koma sönnunum við, að á vissum tíma árs veiða íslenskir togarar, þó sjálfsagt sjeu þeir ekki margir, þar í landhelgi, og menn vita þar um nöfn sumra þeirra. (JóhJóh: Hvers vegna eru þeir ekki kærðir?). Það er nú oft svo, að menn geta ekki sannað formlega það, sem þeir eru sannfærðir um að sje rjett. Það er á hvers manns vitorði þar eystra, að á Vaðlavík toguðu íslenskir togarar, jafnvel nótt eftir nótt, síðastliðið sumar. En þegar varðskipin loksins komu, voru þeir allir farnir. Þó hafði verið skilin þar eftir „bauja“, sem skilríkir menn þóttust bera kensl á, enda þótt fullum sönnunum yrði ekki við komið. Það er og ákaflega sennilegt, að þegar togari selur fisk, sem ekki fæst á þeim tíma, nema á vissum miðum innan landhelgi, að sá fiskur sje ólöglega veiddur.

Annars sje jeg ekki ástæður til þess að fara út í deilur um grg. frv., þar sem öll sjútvn. er sammála um það, að hafa beri eftirlit með því, að loftskeytatæki veiðiskipa sjeu ekki misnotuð. Það er óneitanlega aðalatriðið, þó að hitt megi deila um, hve hörðum orðum sje farið um þessa misnotkun í greinargerð frv.

Mjer er kunnugt um, að talsverð gremja er innan sjómannastjettarinnar gegn togurunum, bæði vegna landhelgiveiða þeirra og vegna þess, hve oft kemur fyrir, að togarar eyðileggja veiðarfæri fyrir smáútveginum. Að þessu síðarnefnda kveður mjög t. d. kringum Vestmannaeyjar, svo að varðskipi, kostuðu af ríkissjóði, hefir verið haldið þar úti um vertíðina, sjerstaklega í því skyni, að koma í veg fyrir, að togarar spiltu veiðarfærum. Að vísu hafa Vestmannaeyingar átt þetta manna best skilið, jafnframt vegna björgunarmálanna, en ástandið miklu víðar kringum landið er svipað og það var í Vestmannaeyjum. Jeg hefi sjálfur haft útgerð um alllangan tíma, og formenn þeir, sem hjá mjer hafa verið, telja að meiri skemdir á veiðarfærum stafi af völdum Íslendinga en t. d. Englendinga. Þeir halda því fram, að ef Englendingum sjeu gefin merki, sje undantekning, ef þeir taki þau ekki til greina, en út af því vilji mjög bregða með Íslendinga. Það er óhætt að segja, að a. m. k. á Austurlandi er það almenningsálit, að íslenskir skipstjórar sjeu mun ófyrirleitnari í þessum efnum en erlendir stjettarbræður þeirra. Þetta er ekki alveg óskiljanlegt, þegar þess er gætt, að til þessa hefir lítt verið skeytt um alþjóðareglur í farmensku, einkum við fiskiveiðar. En þeim reglum eru erlendir skipstjórar hinsvegar vanir að hlýða.

Jeg álít, að skemdir á veiðarfærum sjeu skaðlegri en margt annað, sem varðar við lög, sem þær að vísu gera, ef hægt er að sanna þær á sjerstakt skip. En það verður ekki gert, nema með bættum landhelgivörnum.

Þegar varðskipið „Þór“ hefir verið tekið frá Vestmannaeyjum til landhelgigæslu annarsstaðar, hefir ríkisstjórnin sjeð ástæðu til að bæta Eyjarskeggjum það veiðarfæratjón, sem þeir hafa orðið fyrir á meðan.

Eins og jeg hefi áður sagt, hefir það komið miklu víðar fram, að smáútvegurinn hefir orðið fyrir þungum búsifjum af hálfu togaranna. Því get jeg tekið undir ýmislegt af því, sem í grg. frv. stendur um ófyrirleitni þeirra og yfirgang.

Jeg mun svo ljúka máli mínu að sinni, en vil taka það fram, að jeg myndi vera fús til að stuðla að því, að fyrirbygt yrði að togarar spiltu svo veiðarfærum smábáta, sem þeir nú gera, því að það er altítt, að á þeim tíma, er togarar veiða á sama sjó og smábátar, að hinir síðarnefndu verði fyrir tilfinnanlegu tjóni af þessum orsökum. Hinsvegar skal jeg játa, að ekki er hægt að leysa þann hnút með þessu frv.