12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í C-deild Alþingistíðinda. (3401)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Jón Þorláksson:

Í fyrra urðu í Nd. miklar deilur um frv., sem var svipað þessu. Var einkum bent á, af hálfu andstæðinganna, hve það væri flausturslega og illa samið. Við yfirlestur þess frv., er hjer liggur fyrir, finst mjer, þótt tilgangur þess sje lofsverður, að frágangur þess sje að ýmsu leyti athugaverður. Jeg vil benda á, að eftir frv. geta menn fallið í hin sömu þungu viti fyrir lítilfjörlegar yfirsjónir um formsatriði og fyrir hin eiginlegu brot, sem lögunum er ætlað að koma í veg fyrir.

Í 1. gr. frv. er svo fyrir mælt, að öll botnvörpuskip skuli hafa fullkomin loftskeytatæki. Þetta kemur í rauninni ekki efni frv. við. Þá má, meira að segja, ætla, að því er snertir aðaltilgang frv., að heppilegast væri, að skipin hefðu engin loftskeytatæki. En sjálfsagt hefir það vakað fyrir þeim, er frv. sömdu, að loftskeytatæki ættu að vera á hverju skipi til björgunar í sjávarháska. En sje greinin skoðuð frá því sjónanniði, finst mjer fjarstæða að einskorða þá skyldu, að hafa loftskeytatæki við botnvörpuskip eingöngu. Sú skylda ætti að fara eftir stærð skips eða skipverjafjölda, eða hvorutveggja. Svo er gert í erlendum lögum. Gæti verið rjett að draga línuna þannig, að öll botnvörpuskip lentu undir þessari reglu, en jeg get ekki sjeð neina ástæðu til að línuveiðari sem er jafnstór og hefir jafnmarga skipverja innanborðs og togari, sje undanþeginn skyldunni, enda þótt máske sje ekki hægt að benda á slík skip hjer, enn sem komið er.

Þá vil jeg víkja að 3. og 4. gr. frv. í sambandi við sektarákvæði 5. gr.

Það er undarlegt, að hvergi er bannað — beinlínis — í frv., að nota loftskeyti til stuðnings við ólöglegar veiðar, nema hvað í 5. gr. eru ákvæði um að þeir skipstjórar, sem hafi „notað loftskeyti til að fremja, dylja eða aðstoða við landhelgibrot“, skuli sæta aukarefsingu. En aðalrefsiákvæði frv. eru alls ekki miðuð við þess háttar brot, heldur eru viðurlögin eingöngu við því, að brjóta reglur um útbúnað skeyta, bókfærslu og afhendingu á eftirritum. Mig furðar á, að hv. sjútvn. skuli ekki hafa athugað þetta.

Sektir gegn brotum á 3. og 4. gr. frv. eru ákveðnar 8–30 þús. krónur. Ef einhver, sem sendir skeyti til veiðiskips eða frá því, gleymir að skrifa undir drengskaparvottorð viðvíkjandi tilgangi skeytisins, fellur hann undir þessi víti, þótt tilgangur hans hafi alls ekki verið sá, að stuðla á nokkurn hátt að ólöglegum veiðum.

Í næstu málsgrein 4. gr. er loftskeytastöðvum og veiðiskipum gert að skyldu að bóka öll skeyti til og frá veiðiskipum. Ef þetta ferst fyrir, þótt ekki sje nema einu sinni, varðar það aftur hinum sömu vítum, sem ákveðin eru í 5. gr., enda þótt enginn grunur sje á, að um annað en vangá eða gleymsku sje að ræða.

Þá er svo ákveðið, að varðskip og togarar skuli í byrjun hvers mánaðar senda dómsmálaráðuneytinu frumrit allra þeirra loftskeyta, sem milli lands og skips hafa farið á síðastl. mánuði og eftirrit skeyta skipa á milli, sem náðst hafa. Ef þetta ferst fyrir hjá skipstjóra eða útgerðarstjóra, varðar þetta brot, sem eingöngu er formlegs eðlis, hinum sömu sektuni, — 8000—30.000 kr. Sama er að segja, ef gleymist að senda skeytabækur í árslok til dómsmálaráðuneytisins.

Mjer finst frv. steyta á því skeri, að gera ekki greinamun á því, sem ekki er brot á öðru en hreinum formsatriðum, og brotum gegn landhelginni og rjetti landsmanna til að veiða í henni. Hjer virðist helst sem verið sje að búa til allskonar gildrur, sem líklegt er að fleiri eða færri gangi í, því að allir þeir, sem safnað hafa opinberum skýrslum og eyðublöðum vita, að ávalt eru einhverir, sem gleyma að skila í tæka tíð. Að vísu er rjett að hafa viðurlög við slíku, svo að menn geri það ekki viljandi. En 8000–30.000 kr. sektum kemur ekki til mála að beita fyrir vanrækslu á formlegum reglum, heldur þegar fyrir liggur brot á því, sem frv. er ætlað að koma í veg fyrir loftskeytanotkun til stuðnings við ólöglegar veiðar. Þetta tel jeg alvarleg missmíði á frv.

T. d. um það, hve frv. er illa samið, skal jeg geta þess, að í 5. gr. eru refsiákvæði gegn skipstjórum, sem noti loftskeyti til að fremja landhelgibrot. Hvernig er nú eiginlega hægt að fremja landhelgibrot með loftskeytum? Það verður ekki gert nema með því að veiða með þeim.

Jeg þykist þá hafa nefnt næg dæmi til að rökstyðja þann dóm minn, að frv. sje illa undirbúið. Við fyrsta yfirlit dettur manni í hug, að það sje af fljótfærni sprottið, en vel má líka vera, að frv. hafi verið gert svona úr garði í þeim tilgangi, að fæla þá þm., sem vilja vanda til lagasmíða, frá því að samþykkja það. til þess að geta sagt á eftir, að þeir sjeu á móti því, sem höfundarnir telja tilgang þess. Mjer hefir fundist kenna þessa á milli þinga í þeim blaðadeilum, sem orðið hafa um málið, að sagt hafi verið um þá menn, er ekki vildu ljá frv. fylgi sitt, eins og það var, að þeir vildu ekki fyrirbyggja ólöglegar veiðar. Jeg vil gera alt, sem er í samræmi við venjulegar rjettarfarsreglur, til þess. En jeg get ekki ljeð frv. óbreyttu fylgi mitt, meðan ætlast er til, að menn sæti sömu sektum fyrir brot gegn formsreglum og fyrir stuðning við ólöglegar veiðar.