12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í C-deild Alþingistíðinda. (3406)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Erlingur Friðjónsson:

Það eru að sumu leyti síðustu orð hv. 3. landsk. (JÞ), sem gera það að verkum, að jeg tek til máls.

Hv. þm. deildi mjög á frágang frv., en þykist þó vera með því, hvað andann snertir, ef það verði lagfært, og þykir sjálfsagt að flm. lagfæri það samkv. hans ósk. Nú vil jeg spyrja hv. þm. að því, hvort það sje venja, að flm. frv. spyrji alla þá, er greiða eiga frv. atkv., hvernig það eigi að vera úr garði gert. Jeg þekki hv. þm. að því, að hann ber fram brtt. þegar honum þurfa þykir og hann vill koma einhverju máli fram. Jeg verð því að skilja hann þannig nú, að hann myndi snúast gegn frv., hvernig sem því yrði breytt, ef andi þess væri sá sami og nú er. Það er þess vegna fráleitt, að flm. fari að gera breytingar á frv., aðeins til þess að þóknast hv. þm. að einhverju leyti. Þá hefir hv. þm. einnig deilt mjög á frv. fyrir það, hve sektarákvæði þess væru há og að þau væru jöfn, hvernig sem brotin væru. Ekkert væri auðveldara en að lagfæra þennan ágalla. Til þess þyrfti að bera fram brtt. við eina gr., og er ekki ólíklegt, að tekið yrði tillit til vilja annara að þessu leyti.

Jeg get getið þess, að jeg taldi enga ástæðu til þess að lækka sektarákvæðin ,en jeg vildi gera það fyrir þann hv. nm, sem annars hefði orðið í minni hl., að ganga inn á þessa breytingu. Annars efast jeg um, að hv. þm. (JÞ) hafi skýrt á rjettan hátt þessi ákvæði 4. gr., sem hann taldi, að væru í ósamræmi við 5. gr.

Jeg held ekki að hinum háu sektum, 8–30 þús. kr., verði nokkurn tíma beitt, þótt eitthvert formsatriði gleymist, eins og að skrifa drengskaparvottorð á skeyti eða því um líkt. Jeg get ekki lagt þann skilning í greinina. Jeg hlýt að skilja afstöðu hv. 3. landsk. (JÞ) á þá lund, að hann sje ósamþykkur anda frv., og því er ekki hægt að taka til greina þá ósk hans, að frv. verði breytt.

Þá kom mjer það mjög á óvart, er hv. þm. Snæf. (HSteins) hjelt langa ræðu um greinargerð frv., ekki síst er hv. 4. landsk. (JBald) hafði sýnt fram á það, að greinargerðin var hvergi nærri eins hörð ádrepa á landhelgisþrjótana og felst í ummælum hv. þm. í ræðum, er hann hefir haldið hjer í þinginu áður. (HSteins: Þá hefir hv. þm. ekki lesið grg.). Jú, og jeg heyrði líka ummælin, sem lesin voru upp. Og það er ekki hægt að áfella togaraflotann með sterkari orðum en að segja, að 1927 hafi 20–30 togarar verið þarna á sama stað og stundu að ólöglegum veiðum, því að togaraflotinn var þá ekki nema um 30 togarar. Jeg hygg, að við flm. getum fyllilega rjettlætt ummæli þau, sem fylgja frv. í greinargerðinni, þegar borið er saman við ummæli hv. þingm.