29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í C-deild Alþingistíðinda. (3417)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mjer finst það sitja illa á hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) og koma úr hörðustu átt, þegar hann leyfir sjer að vanda um fundarstjórn og þingsköp. Maður, sem brýtur mest af sjer, er illorðastur og ókurteisastur allra hv. þm. og yfir höfuð notar venjulega svo óþingleg orð, að hann ætti að rjettu lagi að hringjast niður í hvert sinn, sem hann talar. Og svo ætlar þessi maður, sem hagar sjer eins og götustrákur, að fara að leiðbeina forseta um þingsköp, og hvernig stjórna eigi fundum hjer á Alþingi. Slík skammfeilni er sem betur fer fáheyrð og líkist helst því, að fyllibytta færi að prjedika fyrir mönnum bindindi.

Annars er það gleðilegur vottur um skilning hv. 2. þm. G.-K. á því, hve rótgróin er óbeit þjóðarinnar á þeim mönnum, sem brjóta landhelgilögin, að nú heldur hann því fram, að sjálfsagt sje að samþ. lög, er komi í veg fyrir það, að landhelgibrjótunum haldist uppi að leika lausum hala eins og hingað til.

Í fyrra neitaði þessi sami þm., að þörf væri á að setja lög í þessu efni og gerði alt sem í hans valdi stóð til þess að hindra það, að frv., sem þá var borið fram, næði samþ., og ljet sjer ekki nægja að ausa þá menn auri hjer á Alþingi, sem að málinu stóðu, heldur ljet hann blöð sín halda áfram að ófrægja málið eftir því sem þessir aumu blaðritarar hans gátu. Niðurstaðan af öllum þessum bægslagangi hv. 2. þm. G.-K. varð ekki önnur en sú, að alþjóð manna sannfærðist um, að með framkomu frv. í fyrra hefði verið komið við viðkvæmt kýli á athafnalífi formanns íslenskra botnvörpuskipaeigenda, og að þessi læti hans stöfuðu af því einu, að frv. hindraði þá óvenju hans, að láta togarana stela fiski úr landhelginni, rjett fyrir framan landsteinana þar, sem kjósendur hans eiga heima.

Að því leyti sem þessi hv. þm. hjelt fram, að teknar hefðu verið til athugunar till. hans í fyrra, þá er það mesti misskilningur og ekki annað en ofsjónir hans, ef hann heldur að hann sjái þess einhver merki í þessu frv. Hann lagði ekki nema ilt eitt til málsins í fyrra, svo að af honum var ekki neitt að læra. Hitt er annað mál, að honum færari menn og það jafnvel einstöku flokksbræður hans, hafa sýnt rjettan skilning á málinu og stutt það. Og það var fyrirrennari hans á þingi, sem sagði það í ræðu í þessum sal, að loftskeytatækin væru sett í togarana til þess að hjálpa þeim að veiða í landhelgi, og þessum manni var betur trúað en hinum, sem nú skipar sæti hans.

Það kann vel að vera, að þessi fyrirrennari hv. 2. þm. G.-K. hafi tekið full djúpt í árinni. Loftskeytatækin eru sett á skipin hæði til þess að leiðbeina þeim á fiskimiðin, í landhelgi og annarsstaðar, og svo til þess að fullnægja hinni viðurkendu þörf loftskeytanna, þegar sjávarháska her að höndum.

Eftir að þetta frv. kom fram í fyrra, þá hafði hv. 2. þm. G.-K. í hótunum um það, að ef nokkuð væri farið að líta eftir loftskeytanotkun togaranna, þá væru útgerðarmenn vísir til þess að taka þau af skipunum. Þá notaði hann það sem rök gegn eftirlitinu, að ef slys bæri að höndum þegar svo væri komið, þá væri það eftirlitinu að kenna. Til þess að koma í veg fyrir þetta, og til þess að skera úr öllum vafa um það, að núverandi stj. er ekki á móti því, að skipin hafi loftskeytatæki vegna möguleikanna á því, að þau geti orðið til bjargar, þegar slys ber að höndum, þá voru sett inn í frv. bein fyrirmæli um það, að öll botnvörpuskip skuli hafa fullkomin loftskeytatæki, en eftirlit skuli haft með öllum skeytasendingum eftir því, sem við verður komið um þessa hluti.

Það er auðsjeð, að hv. 2. þm. G.-K. er ennþá vongóður um að geta tafið málið. Hann furðaði sig á því, að þetta frv., sem var borið fram í þingbyrjun, skuli ekki vera komið lengra en þetta, þó að stj. hafi oft mælst til þess, að það yrði tekið á dagskrá. Hann lifir auðsjáanlega í þeirri von, að hv. þdm. sje þetta ekki mikið áhugamál, og tekur upp sama siðinn og í fyrra, og lætur nú eins og skipin sjeu ekki sek um neitt óleyfilegt, hvað loftskeytin snertir.