29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í C-deild Alþingistíðinda. (3419)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Sveinn Ólafsson:

Jeg vildi aðeins svara þeirri yfirlýsingu hv. 2. þm. G.- K., að jeg hefði valdið því, að þetta frv. strandaði á síðasta þingi. Má vera, að það sje honum til málsbóta, eins og þá stóð á. Hann ber þetta fram til málsbóta fyrir sig, en hv. þdm. er kunnugt, hvernig hann tók þá í málið, og geta því dæmt um, hvort hann hefir sjálfur alveg hreinar hendur. Jeg bar að vísu fram brtt. við frv., en þær brtt. voru meira að formi en efni. Það voru ekki þær, sem töfðu frv., heldur andúð frá einstökum mönnum, og er ekki rjett að skella allri skuldinni af því á hv. 2. þm. G.-K. Annars var frv. svo seint fram borið, að það var ekki nema eðlilegt, að það dagaði uppi. Frv., sem fram komu um líkt leyti, fóru sömu leiðina, og auðvitað var þetta ekki neinum einstökum manni að kenna, hvorki mjer nje öðrum.