29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í C-deild Alþingistíðinda. (3420)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hafði gaman af að athuga hv. 2. þm. G.-K., meðan hann hjelt þessa síðustu ræðu sína, og var þó ekki laust við, að jeg fyndi til vorkunnsemi.

Hann var að tala um það, að jeg hefði lætt inn grun um að íslensku togararnir veiddu í landhelgi og notuðu loftskeytin til þess. Jeg vil þá benda hv. þm. á það, að jeg heiti ekki Ágúst Flygenring eða Pjetur Ottesen, og ekki heldur Halldór Steinsson eða Hákon Kristófersson. Það voru þeir, sem á sínum tíma ljetu svo illa yfir því, hvað íslensku togararnir væru aðgagnsfrekir í landhelginni, og það eru þessvegna þessir fjórir ágætu flokksbræður hv. þm., sem eiga hjer sökina. Það voru þeir, sem læddu gruninum inn, og þeir gerðu það eftir bestu heimildum og af mestu rökvísi, því að þeir höfðu sjeð togarana með eigin augum í landhelgi, og vissu hvernig siðferðið var hjá þeirra eigin flokksbræðrum. Ummæli þeirra voru sama sem játning frá útgerðarmönnum um, að togararnir veiddu í landhelgi, og það er sannarlega oflof að segja, að jeg hafi verið upphafsmaður að þessu. Jeg hefi aðeins stutt þessa flokksbræður hv. þm. í baráttunni við þá seku í flotanum, en hann vill nú hrifsa heiðurinn frá þeim. Þeir hafa opnað augu alþjóðar fyrir hættunni, en ekki jeg.

Hv. þm. talaði um, að jeg mundi ekki trúa því, að loftskeytin væru misnotuð, og rökstuddi þá fullyrðingu sína með því, að jeg hefði ennþá ekki komið á neinu eftirliti. Jeg hefi einmitt altaf verið að reyna að koma þessu eftirliti á með lögum, en það hefir bara ekki tekist ennþá, nema að litlu leyti, og hv. þm. veit, að eins og nú er ástatt, er ekki hægt að hafa neitt eftirlit. Ef hv. þm. sendir einhverjum af togurum sínum skeyti í kvöld, þá er ekki hægt að heimta af honum drengskaparheit um, að í því sjeu ekki neinar óleyfilegar upplýsingar um ferðir varðskipanna eða annað. Fullkomið eftirlit með loftskeytanotkun togaranna verður áreiðanlega eins mikils virði og nýtt varðskip. Íslensku togararnir eru áreiðanlega verstu landbelgibrjótarnir, og þeir draga hina á eftir sjer, en ef hægt verður að hafa heimil á þeim, þá er hægt að gera sjer von um, að landhelgin verði sæmilega varin.

Hv. þm. tiltók sterk orð, sem jeg hafði um hann á eldhúsdaginn, og mjer þykir það lítillæti, ef hann tekur þau til sín. Það getur samt verið, að hann hafi sjeð, að þau áttu ekki svo illa við hann, þegar hann fann, að honum var ætlaður viss skamtur, sem venjulega er ætlaður ónefndum skepnum.