29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í C-deild Alþingistíðinda. (3421)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Ólafur Thors:

Í tilefni af svari hv. 1. þm. S.-M. vil jeg geta þess, að hann hlýtur að vera orðinn minnissljór, ef hann vill halda því fram, að jeg hafi tekið frv. þessu svo illa í fyrra, að það hafi orðið því til miska. Hann gat þess sjálfur í lok umr. um þetta á síðasta þingi, að allir hefðu talað um málið af velvilja, og þá dugir honum ekki að halda því fram, að jeg hafi tafið málið með illum undirtektuni. Hitt er sönnu nær, að honum tókst sjálfum ekki að klæða það í þann búning, sem honum líkaði, og sat hann þó yfir því öllum stundum. Kvað svo ramt að því, að menn voru farnir að tala um, að hann mundi vera að þýða Kóraninn á íslensku, en hann sat þá altaf yfir frv. og var að reyna að semja brtt. við það. Jeg hafði enga aðstöðu til þess að gera frv. ilt eða gott, því að jeg varð hvergi á vegi þess, nema við 1. umr., en hv. 1. þm. S.-M., sem var flm. þess, og auk þess form. sjútvn., hann hafði aðstöðuna. En honum tókst bara aldrei að gera það svo úr garði, að hann þyrði með það inn í deildina. Þetta ber vott um, að hv. þm. hefir sjálfur skilið hvílík vandkvæði voru á þessu afkvæmi hans.

Hæstv. dómsmrh. þarf jeg fáu að svara. Hann kvað sig ekki eiga sökina á hinum ómaklega óhróðri um útgerðarmenn og sjómenn, sem er orsökin til þess, að þetta frv. er fram komið. Jeg vil þá benda á það, að hann hefir oft í blaði sínu birt langar greinar til þess að ala á þessum óhróðri, og þá sjaldan að einhverjir Íhaldsmenn hafa látið á sjer heyra, að íslensku togararnir væru ekki saklausir af landhelgiveiðum, þá hefir hæstv. ráðh. haldið því mjög á lofti og þótt það vera óvefengjanleg sönnun. En óhróðurinn er ekki sannari, þó hann komi úr íhaldsmanni. Hæstv. ráðh. er svo ósvífinn, að hann talar um landhelgibrotin eins og heimilismál íhaldsmanna. Hann dregur ef til vill þá ályktun af framferði framsóknartogaranna. Það getur svo sem vel verið, að landhelgibrotin sjeu þaðan upprunnin og hafi blómgast þar. Þá getur hæstv. ráðh. talað.

Hæstv. ráðh. sagði, að það sæti illa á mjer að vera að tala um formshlið mála hjá öðrum, þar sem jeg hefði ekki afrekað svo miklu á því sviði sjálfur. Það er þá eins og fyrri daginn, að hann byrjar að tala um þessa hlið málsins, þegar jeg er „dauður“. Annars hefi jeg áður sagt hæstv. ráðh. það, að hann veit ekkert um, hvern þátt jeg hefi átt í hinni veigameiri löggjöf síðari þinga. Mín hefir að vísu hvergi verið getið, en það er með mig eins og flokksmenn mína, við vinnum í gegnum flokkinn, en hirðum ekki að trana nafni okkar alstaðar fram eins og hæstv. ráðh. Hann vill aftur á móti altaf láta sem mest á sjer bera, og lætur síns nafns getið í sambandi við öll stórmál, þegar hann getur því við komið. Sá er munurinn.

Jeg hefi margoft bent á það, að gagnsemi þessa frv. er algerlega komið undir drengskap manna. En það er rangt að byggja á þeim grundvelli. Þá er verið að skapa þeim góða aðstöðu, sem eru minni drengir.

Hæstv. dómsmrh. hefir að lögum rjett til þess að hafa eftirlit með loftskeytanotkun togaranna. En honum finst ekki viðlit að nota þann rjett, vegna þess að eftirlitsins er ekki þörf, og það veit hann. Alt þetta brölt hans í þessu máli er aðeins til þess að sverta og svívirða þær stjettir, sem hann vill ná sjer niðri á.