29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í C-deild Alþingistíðinda. (3423)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Jóhann Jósefsson:

Þegar þetta mál var hjer fyrst á ferðinni — það var á síðasta þingi — fann jeg ekki ástæðu til að taka til máls í því, enda þótt mjer dyldust ekki þeir miklu ágallar, sem á frv. voru. En fyrir þessa þögn álasaði hæstv. dómsmrh. mjer í sambandi við annað mál, er hjer var til umræðu, og taldi hana merki þess, að jeg væri fjandsamlegur landhelgivörnum. Jeg vil nú ekki gefa ráðh. ástæðu til að víta mig fyrir þögn í þessu máli í annað sinn. Þeir, sem voru á móti frv. í fyrra, geta þó að sumu leyti vel unað við frv., eins og það er nú, því að fyrir mótstöðu þeirra, hafa ýmsir stærstu gallarnir verið sniðnir af frv., og margt af því, sem minni hl. sjútvn. lagði til í fyrra um breytingar á frv. hefir verið tekið til greina. Þar á jeg m. a. við, að hinar tafsömu reglur og formúlur eiga eftir frv., eins og það er nú, ekki að gilda, þegar skip er í háska statt, eða í björgunarmálum yfirleitt. Það er því ánægjulegt, að hæstv. dómsmrh. skuli hafa áttað sig dálítið. En þó loða enn stórir ágallar við frv. og sá er þó mestur, að gert er ráð fyrir, að taka megi af mönnum loftskeytarjettindi, sterkar líkur eru fyrir, að þeir hafi misnotað þau. Minni hl. sjútvn. benti á það á síðasta þingi, að það væri nýlunda í löggjöf vorri, að hegna mætti mönnum eftir grun eða líkum. En það kalla jeg einskonar hegningu, þegar menn eru settir undir eftirlit lögreglunnar með einkaskeyti sín. Því hlýtur og að fylgja nokkur blettur á viðkomandi manni. Fyrst og fremst má um það deila, hvað sjeu sterkar líkur. Og í öðru lagi: hver á að meta þessar líkur? Ef til vill hæstv. dómsmrh.? Gögnin á að leggja í hendur dómsmálaráðuneytisins. Verður því eigi annað sjeð, en að það sje undir því ráðuneyti komið, hvenær og hvar þessu ákvæði verður beitt.

Jeg dreg enga dul á það, að jeg tel ekki ólíklegt, að fyrir geti komið, að hvaða dómsmrh. sem er, og þá ekki síst hæstv. núv. dómsmrh., kunni að beita þessu ákvæði öðruvísi en skyldi. Það er öllum kunnugt, að þessi hæstv. ráðherra fer töluvert eftir því í dómsmálastörfum sínum, hverir eiga hlut að máli, þegar hann vill veifa sverði laganna, og því þykir mjer varhugavert að leggja þetta vald í hendur hans. Jeg vil ennfremur benda á hin margendurteknu illmæli hans í garð útgerðar- og sjómannastjettarinnar í sambandi við þetta mál, og það jafnvel í garð ákveðinna útgerðarmanna. Sú framkoma hans bendir ekki til þess, að varlegt sje að fá honum slíkt vopn í hendur sem þetta umrædda ákvæði.

Það hefir þó komið fram í þessu máli, að hæstv. ráðherra getur tekið sjer ofurlítið fram, enda þótt hann eigi erfitt með það.

Hann hefir nú sagt, að ekki sé ólíklegt, að hinn mæti maður, sem hann hefir oftast vitnað í í ræðum sínum um ólöglega loftskeytanotkun togaranna, kunni að hafa kveðið fulldjarflega að orði í því sambandi. Jeg held, að þetta sje rjett hjá hæstv. ráðherra, að þessi mæti maður hafi kveðið fullsterkt að orði.

Hinsvegar tel jeg nauðsynlegt að hreinsa þá útgerðarmenn, sem saklausir eru, af þessum grun og þeim illmælum, sem yfir þá hefir rignt vegna hans frá hæstv. dómsmrh. sjerstaklega. Það er að vísu ósannað enn, að nokkrir íslenskir útgerðarmenn hafi notað loftskeytin við ólöglegar veiðar. Og það eru allar líkur fyrir því, að mikill meiri hluti íslenskra togaraútgerðarmanna hafi aldrei gert slíkt. En í grg. frv. eru allir látnir liggja undir hinum sama áfellisdómi.

Hæstv. dómsmrh. finst hinn mæti maður, Ágúst Flygenring, vera sjerstaklega vel fallinn til að bera vitni í þessu máli, vegna þess að ummæli hans hníga að því, að áfella útgerðarmannastjettina. Hvers vegna eru nú ummæli þessa manns svo mikils virði hvað þetta eina atriði snertir, í augum hæstv. dómsmrh.? Það stafar af því einu, að hæstv. dómsmrh. vill klína þessum grun á útgerðarmenn og sjómenn. Önnur ástæða getur ekki verið fyrir því, hvílíku ástfóstri hæstv. ráðh. tekur við álit þessa merka manns í þetta eina sinn.

Jeg vil nú leyfa mjer að benda á annað „vitni“ hæstv. dómsmrh. í þessu máli. Það er Bistrup, fyrv. skipstjóri á „Fyllu“, sem eins og kunnugt er, er mjög hjartfólginn hæstv. dómsmrh. Þessi skipstjóri er sá, er gætt hefir slælegast íslenskrar landhelgi og átt hefir flesta legudagana á höfnum inni. En hann vann sjer eitt til ágætis í augum hæstv. ráðh., sem olli því, að síðan hefir hæstv. ráðh. gengið fram fyrir skjöldu honum til varnar, hvar sem minst hefir verið á frammistöðu hans, á þingi, í blöðum og í sambandslaganefnd. Hvaða bróðurband er nú á milli hæstv. ráðherra og varðskipsforingjans? Jú, þessi skipstjóri hjelt því fram í dönskum blöðum til að afsaka ódugnað sinn, að við íslenska togara yrði ekki ráðið, sökum þess, hve hraðskreiðir þeir væru og — vegna þess að útgerðarmenn notuðu loftskeytatækin til að gera togurunum viðvart um ferðir varðskipanna. Síðan þetta kom fyrir er Bistrup orðinn einn af stærstu spámönnum hæstv. dómsmrh.

Þegar hæstv. dómsmrh. talar um þetta mál, á maður bágt með að verjast þeirri hugsun, að þetta sje honum ekki eins mikið alvörumál eins og það er honum kersknismál. Þetta er honum kersknismál, til þess að geta vitnað í menn, sem standa nærri íhaldsflokknum, um óleyfilega loftskeytanotkun, og til að koma að venjulegri illkvitni sinni í garð einstakra útgerðarmanna.

En sje nú litið á málið frá praktísku sjónarmiði, kemur í ljós, að ástandið er nú alt annað en þá, er Ágúst Flygenring mælti þau orð, sem hæstv. dómsmrh. hefir svo margstaglast á. Þá var aðeins eitt danskt varðskip til strandvarna. Nú er eitt danskt skip við landhelgigæsluna og tvö íslensk og verða bráðum þrjú. Það er þegar orðið ógerlegt, og verður enn fremur síðar, fyrir útgerðarmenn, að ætla sjer að stjórna skipum sínum með skeytum úr landi, þó einhver kunni að hafa ætlað sjer þá dul meðan aðeins var eitt varðskip. Það þarf mikla oftrú á gagnsemi njósnarastarfseminnar, ef nokkrum dettur í hug, að nokkur heilvita útgerðarmaður fari að eyða tíma í það, að njósna um hvar „Óðinn“, „Þör“, „Fylla“ og „Ægir“ eru þá og þá stundina. Jeg held að enginn útgerðamanna fari að eyða tíma sínum í svo árangurslítið starf og ógöfugt. Jeg hefi að minsta kosti ekki slíka trú á gagnsemi njósna, þó að hæstv. ráðh. kunni að hafa það. Varðskipin koma inn og fara út á ýmsum tímum og ýmsum stöðum, svo að kalla má það gersamlega ómögulegt að fylgjast með hreyfingum þeirra svo að lögbrjótum verði nokkurt gagn að.

Þetta frv. hefir því enga praktíska þýðingu, nema kannske fyrir hæstv. dómsmrh. Hann hefir sagt, að þetta frv. ætti að vera prófsteinn á áhuga manna fyrir landhelgivörnum. Þetta frv., sem var í fyrra fyrir neðan allar hellur og er enn stórgallað, á að vera mælikvarði á þennan áhuga. Jeg hefi sýnt fram á, að landhelgivarnirnar eru orðnar svo fullkomnar, að frv. hefir enga þýðingu þeirra vegna. Hið eina gagn, sem frv. getur gert, er að ljetta af útgerðarmönnum þeim svívirðingum, sem látnar hafa verið á þeim dynja, ef það þá nægir til þess, sem mjer liggur við að efast um. Fyrir hæstv. dómsmrh. hefir það þá þýðingu, að hann fær tækifæri til að láta í ljós álit sitt á íslenskum skipstjórum og útgerðarmönnum. Minni hl. sjútvn. benti á það í fyrra, að samkv. lögum frá 14. nóv. 1917 og reglugerð frá 17. maí 1918, hefði stjórnin í höndum sjer það eftirlit með loftskeytatækjum, sem nauðsynlegt er. Ákvæði 2. gr. í frv. eru heldur ekkert annað en endurtekning á því, sem stendur í lögunum frá 1917, að undanteknu því, að hjer er sjerstaklega talað um misnotkun loftskeytatækja í sambandi við veiðar í landhelgi, en í hinum lögunum er ákvæðið rýmra og nær yfir alla misnotkun og þá auðvitað þessa líka.

Stjórninni er því innan handar að koma í veg fyrir, að loftskeytatækjum sje misbeitt á þennan hátt. En hæstv. dómsmrh. hefir forsmáð að fara þá leið. Jeg held, að þetta stafi af því, eins og hv. 2. þm. G.-K. sagði, að stjórnin hefir enga trú á því, að þessi misbeiting sje eins mikil og hæstv. dómsmrh. lætur. Hvers vegna beitir stjórnin ekki þeim lögum, sem eru í gildi, til að hindra ólöglegt athæfi, ef það á sjer stað? Það er aðeins eitt svar við þessu, og það er það, að þá hefði hæstv. dómsmrh. ekki haft tækifæri til að innleiða deilur um málið og að endurtaka í 1001. sinn ummæli hins mæta manns, Ágústs Flygenrings, sem miðuð voru við alt annað ástand. (Dómsmrh.: Þessa ágæta Íhaldsforkólfs). Frv. er ekki sprottið af neinni umhyggju fyrir bættum landhelgivörnum, heldur til þess að geta ausið sífeldum tortryggnisásökunum í garð íslenskra útgerðarmanna og sjómanna.