16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í C-deild Alþingistíðinda. (3428)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Þetta frv. fjekk talsverðan undirbúning á síðasta þingi. Það hefir nú gengið gegn um hv. Ed. og ekki orðið fyrir verulegum breytingum, að jeg hygg.

Frv. var nú borið fram í nokkuð öðrum búningi en í fyrra, og ekki teknar upp í það allar þær. brtt., sem fram höfðu komið og ætlað var að kæmist að. Þetta hefir leitt til þess, að þegar málið kom til nefndar hjer, varð að taka það til nýrrar meðferðar og gera á því svipaðar breytingar og gerðar voru í fyrra, að ráði sjerfróðra manna, aðallega að formi, en einnig nokkru að efni.

Þessar brtt. frá meiri hl. sjútvn. liggja fyrir á þskj. 566. — Jeg skal, áður en jeg vík að brtt. sjálfum, geta þess, að á nál. og till. meirihl. á þskj. 566 hafa orðið prentvillur, sem leiðrjetta má á skrifstofunni. Það stendur til dæmis í inngangi: „Nefndin leggur til“, en á auðvitað að vera „meiri hl. n. leggur til“ o. s. frv. Líka stendur undir staflið b í brtt.: „landssímastjóranum“, en á að vera „landssímastjórninni“, og ennfremur stendur í sama staflið síðar, „hann“ fyrir: hún.

Annars eru brtt. nefndarhlutans líkar og að miklu leyti bygðar á brtt. þeim, sem liggja fyrir frá síðasta þingi á þskj. 628. Fyrsta brtt. er við 4. gr., og er hún í þrem liðum. Er greininni skift í 4 málsgreinar, vegna sektarákvæðanna í 5. gr., sem hjer eru færð niður og gerður á þeim stigmunur eftir eðli brotanna.

Ennfremur er með þessari breytingu numið burtu það ákvæði 4. gr., að skeytabækur skuli lagðar fyrir sjútvn. þingsins, en þessum nefndum hinsvegar áskilinn rjettur til að fá þessar bækur til athugunar og rannsóknar.

Þá eru sektir, skv. 5. gr., færðar niður til samræmis við sektir fyrir landhelgibrot. Eru sektir fyrir meiri háttar brot ákveðnar 3–15 þús. krónur, en fyrir minni háttar brot 500–10.000 kr. Við 6. gr. hefir meiri hl. n. gert þá brtt., að felt sje niður ákvæðið um, að sjútvn. skuli gera till. um, hve lengi opinberu eftirliti skuli haldið með grunuðum skipstjórnar- eða útgerðarmönnum. Meiri hl. leit svo á, að ekki væri rjett að leggja undir sjútvn. úrskurðarvald í þessu efni, en hinsvegar gæti ráðh., hvenær sem honum þætti ástæða til, borið slíkt undir þær.

Jeg skal í þetta sinn ekki fara langt út í þetta mál.

Það hefir verið um það deilt, hvort gerlegt væri að reyna að aftra landhelgibrotum með því, að heimta drengskaparyfirlýsingu af mönnum, sem skeytum skiftast milli skipa og lands, á hverju skeyti.

Því er nú svo varið, að drengskaparyfirlýsing hefir verið og er mikið notuð og mikið á henni bygt í ýmsum öðrum efnum. Til dæmis hefir tollgæsla hjerlendis mjög bygt á drengskaparyfirlýsingum þeirra, sem innflutning annast. Það virðist því sjálfsagt, þar sem svo miklu skiftir, að landhelgilögunum sje hlýtt, að þetta sje beinasta og eðlilegasta leiðin til að veita aðhald um löghlýðni. Einhvern hefi jeg heyrt halda því fram, að rjettast væri og fullnægjandi að heimta slíka yfirlýsingu af útgerðarmönnum eitt skifti fyrir öll. En slíkt er alls ekki einhlítt, því að í skeytasambandi geta staðið margir aðrir en útgerðarmenn og jafnvel til blóra við þá.

Annað það atriði, sem mest hefir verið fundið að, er ákvæði 6. gr. um að hægt sje, þegar sterkur grunur fellur á einhvern um að hann hafi rofið þagnarheitið, eða notað annað dulmál en tilkynt hefir verið, að setja þann hinn sama undir opinbert eftirlit.

Það er svo sem sjálfsagt, að slíku ákvæði eða aðhaldi yrði að beita með varúð. En það gildir auðvitað um mörg önnur ákvæði í lögum, að þeim má misbeita, og kemur engum til hugar að fella þau úr gildi þess vegna. Hins vegar virðist ekki gott að finna ráð við því, að ekki verði með einhverju móti farið kringum þau opinberu fyrirmæli, ef ekki er eitthvað þessu líkt ákvæði, sem notað verður eins og aðhald. Og eftir 1. nr. 83, frá 1917, er beinlínis gert ráð fyrir því, að ráðherra geti sett með leyfisbrjefi hverskonar skilyrði fyrir þá, sem loftskeytatæki nota, öll þau ákvæði, sem hann álítur nauðsynleg til tryggingar því, að ekki verði leyfið misnotað. Eftir þeim lögum finst mjer, að með reglugerð hefði mátt einmitt setja álíka ströng ákvæði eins og hjer felast í 6. gr.

Nú er það svo, að hjer liggur fyrir brtt. frá minni hl. sjútvn. um það, að fella 6. gr. niður. Mjer virðist, að jafnvel þó að hún fjelli niður úr frv., — sem jeg get þó ekki álitið ástæðu til — þá mætti samkv. ákvæðum í 2. og 1. gr. nefndra laga frá 1917, setja með reglugerð álíka áhrifamikil ákvæði og felast í 6. gr. Því að það er í raun og veru því nær fortakslaus rjettur ráðherra til tálmunar misbrúkun loftskeyta úr landi eftir þeim lögum. Jeg vildi, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa fá orð úr 4. gr. laganna. Þau hljóða svo:

„Innan íslenskrar landhelgi og á Íslandi má aðeins að fengnu leyfi ráðuneytisins og með þeim skilyrðum, sem leyfið ákveður, setja upp og nota stöðvar eða annan útbúnað til þráðlausra firðviðskifta á skipum.“

Jeg lít svo á, að eftir þessari grein megi jafnvel ákveða eins strangt eftirlit eins og gert er ráð fyrir hjer í þessari 6. gr.

Jeg mun hafa tekið fram, að jeg ætlaði ekki að fjölyrða um þetta, enda veit jeg líka, að sama gildir um þetta mál eins og mörg önnur, að það er ekki orðafjöldinn, sem mest á veltur, heldur hitt, hvort þau eru rjettilega skoðuð.

Jeg þykist vita, að fleiri hafi eitthvað að segja um þetta mál, áður en lýkur, og vil því ekki tefja fyrir þeim að komast að.