18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í C-deild Alþingistíðinda. (3433)

64. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Jón Ólafsson:

Jeg stend bara upp til þess að láta í ljós þá skoðun mína, að hjer er um fráleitt hjegómamál að ræða. Það hefir samt verið lögð í það mikil vinna og mikil áhersla lögð á það hjer í hv. d., þó að jeg verði að slá því föstu, að þeir sem fylgja því, gera það bara til að láta líta svo út, sem hjer sje verið að eiga við hættulega óbótamenn. Það er sami andinn í frv. og í öðru háttalagi hæstv. dómsmálaráðherra. í því er innifalin hin rammasta njósnarstarfsemi. Hæstv. ráðherra vill gera mönnum upp, að þeir geri altaf það, sem þeir eiga ekki að gera, en jeg get fullvissað hæstv. ráðherra um það, að íslensk útgerð hefir aldrei verið og verður aldrei bygð á því, að menn fari í landhelgina og sæki sína afkomu þangað. Það er svo fjarri öllu lagi, að jeg er hissa á, að nokkur þm. skuli geta lagt trúnað á slíkt. Það hefði verið nokkru nær að nota tíma þingsins til að ræða einhver af hinum stóru og merku málunum, eins og til dæmis frv. þau, sem liggja eftir milliþinganefndina í landbúnaðarmálum. En stjórnendur þingsins leggja mesta áherslu á smámál, sem smámennum einum er lagið að hafa til meðferðar. Það má minna á fleiri mál, sem stjórnendum þingsins hefir tekist að koma fyrir kattarnef, af því að í þeim er nokkur veigur. Jeg skal nefna lög um sveitabanka. Jeg býst við, að kjósendum landsins gefist á að líta, þegar þeir fá að sjá skrá yfir afgreidd mál frá þessu þingi. Fyrir atbeina ráðandi manna hefir Fiskiveiðasjóðsmálinu, því merka máli, verið stungið undir stól í Ed. Það þyrfti að gera skrá yfir þau mál, sem fengið hafa slíka meðferð hjer á þessu þingi, svo að menn geti borið saman það sem afgreitt hefir verið og það, sem hefir verið látið óafgreitt. Á þá skrá kæmu öll merkustu mál þingsins, þar á meðal myntlagafrv., lög um mentaskóla, lög um gerðardóma í kaupdeilum. Þessi mál o. fl. hafa ekki fengið að ganga sinn gang, þrátt fyrir vilja yfirgnæfandi meirihl. þm. í d.

Jeg minnist þess, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sat hjer við hliðina á mjer alt síðasta þing og skrifaði og skrifaði um þetta mál, — lög um loftskeytatæki. Þá var ekki hægt að finna því nógu valin orð eða góðan búning, enda var iðnasti og greindasti þm. Framsóknarflokksins látinn vinna að því. Nú hefir þetta mál gengið sinn hæga gang í vetur, og nú á síðasta degi þingsins skyldi maður ætla, að á því væri orðinn sæmilegur frágangur, og því væri ætlað að vera eitthvað annað og meira en skálkaskjól fyrir „spíóna“, og tilefni til að rjetta enn einu sinni bein að vildarmönnum dómsmálaráðherrans. En sannleikurinn er sá, að málið er þannig undirbúið, eftir alt erfiðið og baslið, að brosleg verður fáfræðin sem alstaðar skín í. Það er t. d. aðeins tekið fram, að á skipunum eigi að vera loftskeytatæki, en það er engin skylda að starfrækja þau. Það smáatriði hefir gleymst. Samt er málið rökstutt með því, hvað þetta sje nauðsynlegt fyrir öryggi skipshafnanna. Þá er og eins og enginn hafi vitað, að nú eru komnar miðunarstöðvar og taltæki í skipin. Og jeg veit af reynslu, enda er það alviðurkent, að slík tæki eru miklu öruggari en loftskeytatæki, til þess að geta umflúið varðskipin. Til dæmis eru miðunartækin svo glögg, að ef strandvarnarskip eru úti á hafi og brúka loftskeyti, þá eru þeirra bjóð svo auðþekt, að þegar þau byrja að tala, vita þeir, sem miðunartæki hafa, hvaða varðskip er um að ræða. Þeir þurfa ekki annað en miða bjóðin, og er þá venjulega mjög hægt að vita fjarlægðina.

Jeg get sagt þeim, sem hafa verið að bisa við þetta hátt á annað ár, með engum árangri þó, að jeg hefi talfæri í einu skipi, og þarf ekki annað en setjast niður í skrifstofu minni og tala við það, eins og jeg tala við ykkur hjerna í deildinni. Og okkar samtal getur frv. ekki fyrirbygt. Það getur ekki fyrirbygt, að jeg hafi þetta áhald og tali við skipin. Og ef jeg vildi gefa þeim bendingu, þá geta þau látið allan flotann vita af því; það leiðir af sjálfu sjer. Og vitanlega er í þessu frv. enginn íhlutunarrjettur trygður um dulmál milli skipa úti á sjó, þegar þau eru að láta hvort annað vita um veiði. Þau geta verið 6–7 í hóp, og talað um veiði sína hvert við annað, án þess að neitt sje við það að athuga, en þó í mismunandi þýðingum.

Þetta sýnir átakanlega, að hjer eru menn að berjast við skuggann sinn. Jeg get brosað að öllu þessu striti við það að koma áfram þessu frv. Mjer er svo hjartanlega sama um það, og vil ekki leggja stein í götu þess. Það er ekki þess vert.

Benda mætti enn á ýms atriði í frv., sem sýna það átakanlega, að þeir, sem eru að burðast með það, botna ekkert í því. Þeir eru að þessu annaðhvort af leikaraskap fyrir fjöldann, eða af því að þeir eru ímyndunarveikir, eða þá af þeirri eðlishvöt, sem setja vill þefara í allar gættir, hjer eins og annarsstaðar. Mjer þykir slæmt, að dómsmálaráðherra er ekki nálægt. Jeg ætlaði að bera upp við hann eina spurningu. Mjer er sagt að hann hafi ekki sterkari áhuga á landhelgivörnum en svo, að t. d. síðasta haust hafi margir menn úr Ólafsvík kært skip sem voru að veiðum í landhelgi. Þá hafi hæstv. dómsmrh. sagt, að þessi kæra yrði ekki tekin til greina. Var það vegna þess, að á undan var genginn úrskurður um það, að ekki megi taka mark á mönnum, sem ekki hafi „autoriseraða” pappíra að skrifa á, samanb. m.b. Trausti! Sje það nú satt, að hann hafi látið undir höfuð leggjast að ginna þessari kæru, þá er það ljóst, að þessi lög eru ekki borin fram til þess að vernda landhelgina, heldur í öðrum og óæðri tilgangi.

Það er nærri broslegt að lesa síðari kafla 2. málsgr. 4. gr. Þar er ákveðið, að varðskipin eigi að safna saman öllu því, sem skipin tala sín í milli. Með loftskeytatæki eru nú sem stendur 40–50 skip, og verða sennilega 60–70 með loftskeytatækjum, sem starfrækt verða. Þegar þau svo öll fara að tala um sín fiskiveiðamál, hvað þessi og þessi hafi fengið mikið og hvar, þá held jeg að nóg verði að gera fyrir þessa hlustara, sem hjer koma í staðinn fyrir þefara. Það verður sjálfsagt að láta þá hafa vissar stöðvar! En auðvitað annar því enginn, að hlusta á þetta skraf. Þetta er svo hlægilega vitlaust, að það er nærri skömm fyrir landið að láta slíkt sjást í lögum frá Alþingi.

Jeg ætla ekki að fara langt út í frekari skýringar málsins, en get þó ekki látið vera að benda á eitt atriði. Það á sem sje að taka pappíra af skipstjóra, ef hann verður brotlegur. En flm. gera sjer ekki grein fyrir því, að þótt pappírarnir sjeu teknir af skipstjóra, þá dettur engum manni í hug, sem við fiskiútgerð fæst, að taka skip af manni fyrir það, ef það er góður aflamaður. Enda þarf það ekki að vera af hans völdum, þótt ríkjandi stjórn sýnist að taka af honum pappírana.

Það er til lítils að vera að hugsa um endurbætur á þessu frv., enda ekki þess vert. Það eru til aðrar leiðir og betri til þess að vernda landhelgina. Til þess duga varðskipin best, og níundu duga betur, ef þau fengi að vinna í friði. En hversu mörg, sem þau verða, þá duga þau auðvitað ekki ef þau eru í sífeldu snatti með ráðherrana o. fl., sem ríkið hefir ekkert gagn af. En á því hefir borið meira en skyldi.

Jeg býst við, að af því, sem jeg hefi hjer sagt, sjáist, að ekki er einhlítt að ofsækja loftskeytatækin ein, því með þeim framförum, sem jeg hefi nú lýst,

miðunartækjunum og taltækjunum, sem að vísu ná ekki langt, en þó nógu langt til þess, að menn geta talað saman á flestum fiskimiðum hringinn í kringum land, — þá sje jeg ekki annað en það sje leikur einn, og þýði alls ekkert að vera að bisa við loftskeytin ein.

Jeg mun nú lúka máli mínu, því víst munu margir hafa hug á að segja álit sitt um þetta mál. Og jeg endurtek þau orð mín, að það mun ekki hryggja mig, þótt frv. þetta gangi gegnum deildina og verði að lögum, því gleggra einkenni amlóðaskapar er ekki hægt að skaffa feðrum frv.