20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í C-deild Alþingistíðinda. (3460)

80. mál, sérleyfi til að fleyta vikri

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Í þessu frv. er farið fram á það, að atvmrh. sje veitt heimild til þess að veita Sveinbirni Jónssyni, Knararbergi í Eyjafirði, sjerleyfi til þess að fleyta vikri niður Jökulsá á Fjöllum og gera ráðstafanir til þess að þetta verði að notum og framkvæmanlegt, svo sem t. d. að leggja vegi frá vikurnámunum til árinnar, setja fljótandi stíflur í ána, og annað, sem nauðsynlegt þykir.

Maður sá, er óskaði að jeg bæri fram þetta frv., hefur fengist töluvert við að vinna úr vikri. Enn hefir hann þó ekki gert annað en að steypa plötur, er notaðar hafa verið í stað korks innan á húsveggi. Hefir hann komist að raun um, að það er vel gerlegt að nota slíkar vikurplötur, en þær verða aðeins að vera helmingi þykkri en korkið, til þess að gera sama gagn. En sá er munurinn, að hjer er fundið ráð til þess að vinna svona plötur úr innlendu efni, og er Sveinbjörn sá fyrsti, er hefir dottið slíkt í hug. Er því mjög sanngjarnt, að eitthvað sje gert af hálfu hins opinbera, til þess að lyfta undir þetta, og honum gert fært að halda þessum tilraunum sínum áfram.

Enda þótt jeg sje nú sjálfur ekki hrifinn af sjerleyfum yfirleitt, þá vona jeg nú samt, að hv. deild taki vel í þetta mál og lofi því að fara til nefndar. Ennfremur vona jeg, að sú hv. nefnd, er fær þetta mál til athugunar, íhugi gaumgæfilega, hvað hægt er að gera þessu til styrktar, án áhættu fyrir hið opinbera.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta, en geri það að till. minni, að málinu verði vísað til allshn., að umræðum loknum.