27.03.1929
Efri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í C-deild Alþingistíðinda. (3478)

103. mál, menntaskóli og gagnfræðaskóli í Reykjavík og Akureyri

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg skal svara stuttlega hv. 3. landsk. Hann er mjer sammála um það, að nauðsynlegt sje að losna við þá tvískiftingu, sem verið hefir í Mentaskólanum, og er mjer því samþykkur í því, að ákvæði frv. um þetta efni sjeu til stórmikilla bóta. En svo óttast hann, að það sama komi fyrir á Akureyri og hjer hefir átt sjer stað. En það er engin ástæða til þess að óttast þetta, því fyrirkomulag fræðslunnar er alveg það sama á báðum stöðunum. Munurinn er aðeins sá, að á Akureyri verða báðir skólarnir í sama húsi. En það er einungis af fjárhagsástæðum. Reykjavík, sem hefir 25 þús. íbúa, er of stór til þess að hægt sje að hafa mentaskólann og gagnfræðaskólann í einu og sama húsi. Nú þegar er orðið alt of þröngt í skólanum, svo að illa fer um nemendur, og kennararnir hindrast í starfi sínu af sömu ástæðum. Þessi aðskilnaður verður því að fara fram hjer í Reykjavík. En þá segir hv. 3. landsk., að þetta verði að gerast á Akureyri líka. Þetta er vitanlega hreint fyrirkomulagsatriði. Og þar sem nú stendur svo á, að skólinn á Akureyri hefir mikið pláss ónotað, auk þess, sem þarf undir mentaskólann þar, þá virtist það óskynsamlegt, að láta það ónotað, en heimta að landið færi að byggja annað. En vitanlega stendur slíkt opið fyrir í framtíðinni, ef þörf krefur.

Jeg vona því, að hv. deild sjái, þrátt fyrir þetta, að ekkert samband á að vera milli þessara tveggja skóla, þó að þeir sjeu í sama húsi. Og ef hægt er að gera aðskilnaðinn ennþá gleggri án þess að spilla málinu, þá er jeg fús til þess. Eitt atriði vil jeg þó taka fram og það er það, að gert er ráð fyrir því, að sami skólastjóri verði í báðum skólunum á Akureyri. Það þykir heppilegra, þegar um sama hús er að ræða. Annars er það ekki nauðsynlegt. T. d. heimsótti jeg ýmsa skóla í London í haust, er voru notaðir fyrir mentaskóla fyrri hluta dagsins en alþýðuskóla síðari hluta dags. Voru þar 2 skólastjórar, sem voru hvor öðrum alveg óháðir. Slíkt gæti vitanlega líka verið hjer, en jeg býst ef til vill við, að menn kynnu illa við það.

Þá er eitt, sem jeg held að sýni nægilega greinilega, að um tvo aðskilda skóla er að ræða, sem sje það, að sín skólanefndin er yfir hvorum. Heitir það skólaráð, er mentaskólanum stjórnar, en skólanefnd stjórnar gagnfræðaskólanum. Er gert ráð fyrir, að þetta verði hið varanlega fyrirkomulag kaupstaðaskólanna. Svo tekur Akureyri á sig meiri byrðar, eftir því, sem skólinn vex, þannig að bærinn hefir gagnfræðadeildina, en landið eða ríkið lærdómsdeildina. Vona jeg nú, að hv. þdm. skilji, að hjer liggur ekkert á bak við annað en það, að á Akureyri er skólahús, næstum því eins stórt og hjer, en þar eru 3000 íbúar en hjer 25 þús. Þess vegna er hægt að nota húsið á Akureyri fyrir meira.

Þá vjek hv. 3. landsk. að því, að þessir 8 bekkir hjer myndu ekki koma að sömu notum tiltölulega og 4 bekkir á Akureyri, vegna þess, að ætíð væru að mun færri menn í stærðfræðideild en lærdómsdeild, og mundi því fyrirkomulagið skapa nokkurn ójöfnuð. Þetta held jeg að sje tæplega rjett. Jeg hygg, að undanfarin ár hafi verið þetta 12–15 í stærðfræðideild. Er það að vísu nokkuð færra en gert er ráð fyrir, að nemendafjöldinn verði mestur í deild. En þetta býst jeg við að breytist. Íslendingar eru yfirleitt ekki síður gefnir fyrir stærðfræði en annað, og þegar svo heimavistin er komin upp, þá geta menn, sem stundað hafa nám t. d. á Eiðum, Laugum, eða Núpi, og gefnir eru fyrir stærðfræði, farið hingað til Reykjavíkur. Þannig mundu þá dragast menn af öllu landinu í stærðfræðideildina, og held jeg því, að ekki þurfi að óttast, að hún verði mikið minna sótt.

Hvort mentaskólinn, eins og honum er ætlað að vera samkv. frv., útskrifar of lítið af stúdentum, skal jeg láta ósagt um. Þó verð jeg heldur að líta svo á, að með þessu fengi þjóðin nóg af stúdentum. Um aldamótin munu hafa útskrifast árlega um 20 stúdentar, og var það álitið mjög hæfilegt þá. Þó að þjóðinni hafi nú að vísu fjölgað allmikið síðan, þá verð jeg að álíta, að nægilegt sje fyrir hana, ef hjeðan frá Reykjavík útskrifast árlega ca. 40 stúdentar, en ca. 20–25 frá Akureyri. Það yrðu þá 60–65 árlega.

Hygg jeg, að hægt sje að sanna það, að þjóðin hafi ekki þörf fyrir meira. Takmörkun sú, er frv. gerir ráð fyrir, miðast við húsrúmið. Og yfirleitt er það nú svo, að ekki er hægt að hyggja við Mentaskólann án þess að eyðileggja bygginguna. Það er meira að segja varla hægt að hyggja heimavist á núverandi lóð skólans. Annars met jeg það meira, að vel fari um nemendurna, heldur en að þeir séu mjög margir, og því álít jeg, að átta bekkir sjeu það mesta, er setja má í húsið.

Hvað heimavistina snertir, verð jeg að halda því fram, að eins og nú er, bæti hún ekki úr vandræðunum nema að nokkru leyti. Þetta stafar af því. hvað aldurstakmarkið í gagnfræðadeildinni er lágt. Flestir nemendur hennar munu vera á aldrinum frá 12 til 10 ára. Og þó að heimavistin væri ekki sjerlega dýr, hygg jeg að margir foreldrar mundu hika við það, að senda 12–14 ára gömul börn sín þangað, því hún mundi vafalaust verða að teljast miður heppileg uppeldisstofnun fyrir börn á þeim aldri. En fyrir lærdómsdeildina ætti heimavistin að geta komið að notum. Það er því af uppeldislegum ástæðum, að jeg tel rjett að hindra það, að í heimavist safnaðist mikið af unglingum á sama reki og þorrinn allur af þeim, er nú er í gagnfræðadeild.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta að sinni.