14.05.1929
Efri deild: 68. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í C-deild Alþingistíðinda. (3484)

103. mál, menntaskóli og gagnfræðaskóli í Reykjavík og Akureyri

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi leyft mjer að bera fram örfáar brtt. við frv. á þskj. 620.

Eins og getið var um við 2. umr. um þetta mál, höfðu einstakir nefndarmenn í mentamálan. geymt sjer að bera fram brtt. um einstök atriði frv. til 3. umr., og kemur nú hjer fram það, sem mjer þótti helst ástæða til að bæta við till. n. þá.

Fyrsta brtt. er við 4. gr. og virðist mjer hún í eðlilegu samræmi við till. n. og vænti, að hún mæti ekki mótspyrnu.

Það má skilja frv. svo, að skylt sje að skiftingin í máladeild og stærðfræðideild nái til allra fjögra ársdeilda skólans, en mjer finst eðlilegra, enda býst jeg við að það verði ofan á, að a. m. k. fyrsta ársdeildin verði óskift. Mín brtt. miðar að því, að gera það frjálst.

Þá er 2. brtt. mín um það, að krefjast nokkurrar þýskukunnáttu við inntökupróf í Mentaskólann í Reykjavík, og er það í samræmi við ákvæði frv. um Akureyrarskólann. Að vísu er því haldið fram, að þar sem gert er ráð fyrir að skólaárið verði, a. m. k. fyrst um sinn, einum mánuði styttra í mentadeild skólans á Akureyri en í Reykjavík, þá verði að krefjast nokkuð meiri undirbúnings til inntöku í hana en mentaskóla Reykjavíkur.

Jeg held nú, að þetta muni ekki svo miklu, að ástæða sje til að gera slíkan mun á, úr því að þetta er heimtað á Akureyri, og sömuleiðis er ákveðið eftir frv., að þýska skuli vera skyldunámsgrein í efstu bekkjum gagnfræðaskólanna, sem líta má á sem undirbúningsskóla undir mentaskólana. Af kennara hálfu er líka alment haft á móti því, að byrjað sje á tveim útlendum tungum á sama vetri. Nú er vitanlegt, að í 1. bekk verður byrjað á latínunámi, og sje þýska ekki tekin í 1. bekk, verður hún ekki kend nema 3 vetur, og finst mjer, sem hafði þýsku 6 vetur í skóla, það nokkuð lítið.

Þetta er þó atriði, sem beint snertir kensluna, sem jeg auðvitað alls ekki er neinn sjerfræðingur i, en jeg vildi þó hreyfa þessu, til samræmis við ákvæði frv. um Akureyrarskólann.

Þá er 3. brtt. mín um að fella í burtu kenslu í „atvinnufræði“. Jeg segi eins og er, að jeg veit ekki, hvað þetta er. Mjer er næst að halda, að þetta hafi komist óvart inn í frv. í hinum nýrri skólum sumum er kend fjelagsfræði, hagfræði og því um líkt, og má vera, að eitthvað svipað sje átt við með þessu, en jeg, sem sagt, hefi ekki getað fundið þessari námsgrein neinn stað, og engar skýringar fengið á, hvað þetta væri.

Þá kem jeg að 4. brtt., um heitin á þessum tveimur prófum í gagnfræðaskólunum. Það kom fram í n., að hún var ekki allskostar ánægð með þetta, hvað nöfnin eru lík, enda er hætt við, að þeim yrði ruglað saman og jafnvel að minna prófið yrði uppnefnt manna á milli. Þess vegna hefi jeg lagt til, að þessu verði breytt á þann hátt, sem segir í brtt.

Þá er loks 5. og 6. brtt. á þskj. 620, og eru þær samstæðar, um stjórnarfyrirkomulag gagnfræðaskólanna. — Þessar brtt. fela í sjer, að gagnfræðaskólarnir verði settir undir sömu stjórn og barnaskólar í kaupstöðum landsins. Það er einmitt eftir bendingum frá núverandi fræðslumálastjóra, að jeg hefi tekið þetta upp. Mjer virðist þetta tvent svo nátengt, að ekki sje ástæða til að hafa tvær skólanefndir á sama stað. Það ætti að geta orðið betra samræmi og skipulag á þessu, með því að fela sömu skólanefnd yfirstjórn hvorstveggja.

Í samræmi við þetta er hin brtt., um að lög um skipun og laun kennara verði einnig látin gilda um kennara við gagnfræðaskólana og sömuleiðis hliðstæð ákvæði fræðslulaganna.

Í rauninni hefði jeg helst viljað ganga nokkru lengra, að því er snertir skiftingu kostnaðarins við skólana, og færa frv. til samræmis við ákvæði fræðslulaganna um þetta. Ákvæði frv. um þetta eru dálítið óákveðin. Þar er gert ráð fyrir, að ríkissjóður launi tvo kennara auk framlags, sem miðast við nemendafjölda.

Mjer hefði þótt eðlilegra, að skifting kostnaðarins hefði verið gerð svipuð og við barnafræðsluna; nefnilega 2/5 úr ríkissjóði á móti 3/5 úr bæjar- eða sveitarsjóði, eða að bæjarsjóði hefði verið gert að greiða vissan hluta kostnaðarins gegn vissum hluta úr ríkissjóði. — Jeg hefi þó ekki sjeð ástæðu til að bera fram brtt. í þessa átt, en látið nægja að orða brtt. mínar um stjórn skólans eins og jeg hefi gert á þskj. 620. Jeg þykist líka vita, að ef tekin verður upp sú stefna, að skipa þessum skólum í fast kerfi, þá verði skifting kostnaðarins tekin til athugunar, og samræmi komið á í því efni, milli hliðstæðra skóla.

Þetta eru nú sem sagt aðeins fyrirkomulagsatriði, sem ekki raska neinu um grundvöll málsins.

Jeg hefi þó talið rjett, að koma fram með þessar till. mínar nú, enda þótt sýnilegt sje nú orðið, að málið muni ekki ganga fram á þessu þingi.