15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í C-deild Alþingistíðinda. (3488)

103. mál, menntaskóli og gagnfræðaskóli í Reykjavík og Akureyri

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi orðið fyrir því óhappi að glata hjer í skjalahrúgunni því, sem jeg hafði ritað upp eftir hæstv. dómsmrh. Um fyrstu brtt. mína viðurkendi hann, að í henni væri fólgin sjálfsögð skýring. Fyrir 2. brtt. minni færði jeg þrjár ástæður. Hv. 6. landsk. (JónJ) tók eina þeirra til athugunar og vildi ekki fallast á hana. (JónJ: Þetta er nú svona). Já, það er rjett, og það slarkast af vegna þess, að skólinn hefir sem stendur alveg óvenjulega duglegum kennara á að skipa í þessari námsgrein. — Eins og inntökuprófið á Akureyri felur í sjer kröfur um almenna mentun, þá er það ekki nema alveg eðlilegt, að krafist sje einhverrar kunnáttu í þýsku. Hún er ein af þeim námsgreinum, sem tilheyra hinni almennu mentun. Það er því eðlilegra, að krafist sje einhverrar kunnáttu í þýsku til inntökuprófs í mentaskóla, þar sem þýska er skyldunámsgrein í efsta bekk gagnfræðaskólanna.

Þriðju brtt. minni, um „atvinnufræði‘ hafði hæstv. dómsmrh. ekki verulega á móti, en skýrði hvað hann meinti með orðinu. En það, sem hann meinti, kemur undir annan lið frv., sem sje „hagnýt vinnubrögð“, og tel jeg alveg eðlilegt, að kensla í þeim fari fram bæði bókleg og verkleg, í hverjum bæ, eftir því, sem við á.

Þá eru nöfnin á prófunum. Jeg skal fúslega viðurkenna, að jeg er alls ekki fyllilega ánægður með nafnið „ungmennapróf“. Aftur á móti held jeg fast við það, að nefndin var ekki ánægð með að kalla þau gagnfræðapróf og gagnfræðapróf hið meira. Enda er nú þetta strax farið að aflagast í munni hv. þm. Hv. 6. landsk. var að tala um gagnfræðapróf hið meira og hið minna. Jeg skal nú sætta mig við að taka þessa 1. brtt. aftur til næsta þings.

Út af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði um hjeraðsskólana, skal jeg taka það fram, að nafnið er gott, hlutlaust og yfirlætislaust, og eins og talað er um hjeraðsskóla, mætti eins tala um bæjarskóla, — og mætti þá hugsa sjer að kalla próf frá hjeraðskólum hjeraðsskólapróf, og til samræmis mætti láta sjer detta í hug orðið bæjarskólapróf, — eftir tveggja ára nám.

5. og 6. brtt. mínar gerði hæstv. dómsmrh. að umtalsefni, og get jeg ekki fallist á ástæður hans gegn þeim. Virðist mjer hann leggja of mikið upp úr, að skólanefndirnar sjeu mótaðar af því, að þær hafa hingað til aðeins haft barnafræðsluna með höndum. Jeg held, að það væri rjettara að hafa eina skólanefnd í hverjum kaupstað, sem hefði bæði stjórn ungmennaskólanna og barnafræðsluna með höndum.

Jeg held einmitt, að það yrði mjög gagnlegt fyrir skólamálin í heild sinni, að hver skólanefnd hefði þannig starfsvið, að ekkert í því efni væri undanskilið valdi eða viðhorfi hennar.