21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

86. mál, sala á Laugalandi í Reykhólahreppi

Flm. (Hákon Kristófersson):

Eins og tekið er fram í hinni stuttu grg., sem fylgir frv. þessu, er það flutt eftir ósk þriggja fulltrúa úr Reykhóla-, Geiradals- og Gufudalshreppum í Barðastrandarsýslu, sem kosnir voru síðastliðið sumar til þess að ná endanlegum samningum um læknisbústað fyrir Reykhólalæknishjerað við eigendur Reykhóla.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir þetta læknisbústaðarmál Reykhólahjeraðs verið vandræðamál nú um allmörg undanfarin ár. Það komst það lengst, að búið var einu sinni að ákveða að kaupa jörðina Berufjörð í Berufjarðarhreppi fyrir læknisbústað handa þessu hjeraði, en til þess að þau kaup væru formlega ráðin þurfti að síðustu samþykki sýslunefndarinnar í Austur-Barðastrandarsýslu. En það undarlega skeður, að sú vísa sýslunefnd neitaði um samþykki sitt til jarðarkaupa þessara, þegar til hennar kasta kom. Um atvik þau, sem synjun þessari voru valdandi, sje jeg ekki ástæðu til að tala nú, en með henni var málinu komið í ilt efni fyrir íbúa læknishjeraðsins, því að nú voru þeir neyddir til að leigja jörðina um óákveðinn tíma, því að stjórnarráðið hafði ákveðið með úrskurði, samkv. tillögum landlæknis, að læknisbústaðurinn skyldi vera á þessum slóðum, sem næst Berufjarðarbotni.

Þykir mjer svo ekki hlýða að fara lengra út í þessi sögulegu atriði málsins. En þegar hjer var komið, að ekki náðist samkomulag um málið á þessum grundvelli, komu fram ýmsar óskir um það, hvar læknisbústaðurinn skyldi vera, og hafði hver sínar ástæður fram að bera. Mun þó mega fullyrða, að þeir hafi verið flestir, sem vildu hafa hann á Reykhólum. Er jörð sú, eins og kunnugt er, mörgum kostum búin fram yfir aðrar jarðir, og meðal annars þeim, að þar er gnægð heitra lauga, sem hagnýta má til margvíslegra þæginda. Mál þetta hefir nú á undanförnum missirum verið rætt frá ýmsum hliðum, en þó hafa ekki náðst um það endanlegir samningar. Þannig var t. d., eins og hv. þm. er kunnugt, borið fram frv. á síðasta þingi um heimild til þess að taka jörðina Reykhóla eignarnámi, og var því haldið fram frv. til stuðnings, að jörðin væri mjög vel fallin til þess að hafa þar læknisbústað.

Að sjálfsögðu viðurkenni jeg, að jörð þessi sje mjög vel sett til þess að þar sje læknisbústaður, en hinsvegar tel jeg með öllu óforsvaranlegt að taka alt það stóra höfuðból eignarnámi. Það gat kannske komið til mála, að nauðsyn hefði borið til að taka einhvern hluta hennar þannig, þó jeg sje samt alls ekki viss um það, því að jeg hefi altaf litið svo á, að núverandi eigendur Reykhóla hefðu altaf verið fúsir til að láta einhvern hluta jarðarinnar af hendi undir læknisbústað, og vísa jeg í því efni til brjéfs frá ekkju Bjarna sál. Þórðarsonar, sem er núverandi eigandi jarðarinnar. Mun brjef þetta hafa verið öllum hv. alþm. kunnugt í fyrra.

Mjer þykir nú engin þörf á að fara inn á allar samningaumleitanir, sem átt hafa sjer stað um þessi mál, en vil aðeins geta þess, að síðastl. sumar voru kjörnir þrír menn fyrir hönd viðkomandi hreppa til þess að semja við núverandi eigendur og umráðamenn Reykhóla. Samningamenn þessir voru: hreppstjórinn úr Reykhólahreppi og oddvitamir úr Geira- og Gufudalshreppum. Áttu þeir svo fund saman á Reykhólum ásamt Þórði Bjarnasyni, sem þar var mættur fyrir hönd móður sinnar, eiganda jarðarinnar. Samningar milli þessara aðilja tókust ágætlega. Umráðamaður Reykhóla, Þórður Bjarnason, skuldbatt sig fyrir hönd móður sinnar að láta af hendi úr landi jarðarinnar nægilega stórt landsvæði undir læknisbústað, með því skilyrði, að fulltrúar viðkomandi hreppa hlutuðust til um, að jörðin fengi annað líkt stórt land í staðinn. Samninga þessa hefi jeg í höndunum og er fús til að leggja þá fyrir nefnd þá, sem frv. þetta fær til meðferðar. Til þess nú að útvega þetta áskilda land, hafa menn komið auga á jörðina Laugaland í sama hreppi, sem liggur nærri Reykhólum og er eign ríkissjóðs. En þar sem hún er kirkjujörð, þarf lagaheimild til þess að sala á henni megi fara fram, og fyrir því flyt jeg frv. þetta. Eins og sjest á grg. frv., er hjer um smákot að ræða, sem ekki getur haft neina þýðingu fyrir landið að halda í. Er því, frá mínu sjónarmiði sjeð, ekkert því til fyrirstöðu, að þessi makaskifti megi eiga sjer stað.

Jeg verð að biðja hv. þm. velvirðingar á því, að jeg hefi ekki skýrt rjett frá afgjaldi jarðar þessarar í grg. frv. Þar er tilgreint það afgjald, sem var áður, en ekki það, sem er nú. En að sjálfsögðu ber að miða sölu jarðarinnar við það, sem ríkissjóður hefir haft upp úr henni, en ekki við það, sem hefst upp úr henni nú, en það er eftir því sem jeg best veit aðeins 25 kr. (MJ: Fylgir henni þá ekki svo mikið sem lamb?). Hvað segir hv. þm? (BÁ: Hann spurði, hvort ekki fylgdi lamb). Jeg þakka hv. þm. Mýr. fyrir að bæta úr vanheyrn minni. Já, jeg get vel skilið, þó að hv. 1. þm. Reykv. sje dálítið skilningssljór, þegar talað er um afgjöld jarða og þessháttar veraldlega hluti, því að hugur hans mun að jafnaði vera helgaður öðrum háfleygari viðfangsefnum. En hv. þm. Mýr. hlýtur að vera það ljóst, að rollurnar eru látnar vera með öllum sínum herlegheitum, þegar þær eru látnar í landskuld á vorin. Þær 25 kr., sem ríkissjóður hefir nú upp úr Laugalandi, munu falla til viðkomandi sóknarprests upp í tekjur hans, og jeg þykist vita, eftir þeirri við kynningu, sem jeg hefi haft af þeim heiðursmanni, að hann muni ekki leigja jörðina ábúendum dýrara en þetta.

Verði frv. þetta samþ. nú, verð jeg að halda því fram, að Alþingi hafi gert sitt til þess að leiða þetta læknisbústaðarmál Reykhólalæknishjeraðs til friðsamlegra lykta, og í trausti þess, að svo verði, legg jeg frv. þetta undir úrskurð hv. deildar og leyfi mjer að óska, að því verði að umr. lokinni vísað til allshn., og þar sem jeg á sjálfur sæti í þeirri n., sje jeg ekki þörf frekari upplýsinga á þessu stigi málsins.