27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í C-deild Alþingistíðinda. (3508)

118. mál, sala á landi Hvanneyrar í Siglufirði

Jón Þorláksson:

Jeg get ekki fallist á þessar brtt. á þskj. 427 nje heldur ástæður hv. flm. fyrir þeim, því að með þessu móti má segja, að Siglufjarðarkaupstaður hafi ekkert gagn af þessari sölu. Auðvitað má segja, að hjer sje um verðmæta eign að ræða, en stj. hefir frjálsar hendur um að gæta hagsmuna ríkisins gagnvart bæjarfjelaginu, að svo miklu leyti, sem henni rjett þykir. En það stendur svo á um slík verðmæti, eins og land undir kaupstöðum, að þau byggjast eingöngu á atorku og atvinnu íbúanna, sem á staðnum eru, og jeg álít, að engir sjeu betur að þessum verðmætum komnir en sjálfir íbúarnir, og eigi þeir því að fá að njóta þeirra um fram aðra. Jeg tel því rjett, að bæjarfjelagið fái þessa eign keypta við sanngjörnu verði og kjörum. Annars hefði mátt færa sömu ástæður gegn því að selja Nes í Norðfirði, en deildin fjelst nú á, að salan væri rjett í því tilfelli. Jeg var því samþykkur, en álít, að þetta sje rjett í þessu tilfelli líka. Mjer finst einnig, þar sem þessi eign er ekki mikið verðmæti fyrir ríkissjóð, og verður það líklega aldrei, meðal annars vegna þess, að afgjöld af henni ganga til prestsins, að ekki sje rjett eða sanngjarnt að láta íbúana með skattalögum borga til ríkissjóðs af verðmæti, sem þeir hafa sjálfir skapað ríkissjóði eða eigandanum til handa. Annars er það um Hvanneyri, eða Siglufjarðareyri, að segja, að þetta land liggur svo lágt, að viðhald þessir leiðir af sjer nokkra kvöð fyrir landeiganda, svo að það er síður en svo, að ríkissjóður hafi hagnað af þessari eign.

Hvað það snertir, að setja kvaðir á sveitarfjelagið, ef það kaupir þetta land af ríkissjóði, fæ jeg ekki sjeð, að rjettmætt sje, heldur að um það eigi að gilda sömu reglur og í 1. eru um lóðaeignir bæja- og sveitarfjelaga. Mjer finst það því mjög óeðlilegt að setja sjerskilyrði fyrir þessari sölu. Það er engin hætta á því, að kaupstaðurinn fari að selja þessi lönd úr hendi sjer eða nota þau á annan hátt en tilgangurinn er, sem er sá, að nota þau sem stað fyrir atvinnurekstur og bústaði bæjarbúa.

Vona jeg því, að frv. mitt verði samþ. óbreytt.