27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í C-deild Alþingistíðinda. (3509)

118. mál, sala á landi Hvanneyrar í Siglufirði

Jón Jónsson:

Hv. flm. gat ekki fallist á till. okkar, eins og vænta mátti, en hann gat þó ekki borið á móti því, að hjer væri um verðmæta eign að ræða, en hann heldur því fram, að íbúarnir eigi að fá að njóta þess, vegna þess að eignin hafi orðið verðmæt fyrir þeirra tilverknað. Jeg verð nú að leyfa mjer að álíta það, að þetta sje ekki íbúunum einum að þakka, heldur sje það meira að þakka gæðum landsins og svo því, hve þarna er góð aðstaða til síldveiða, því að auðvitað mun það hafa ráðið því, að menn fóru að setjast þarna að. Jeg tel því rjett, að landið í heild sinni fái að njóta þessara verðmæta.

Hv. flm. veik að því, að garðurinn, sem bygður hefir verið til varnar þessu landi, hafi orðið ríkissjóði mjög kostnaðarsamur. Jeg er nú ekki viss um, að Siglufjarðarkaupstaður fari ekki fram á styrk til að viðhalda þessu landi, þó að hann eignist það sjálfur. Legg jeg því ekki mikið upp úr þessu atriði.

Jeg bjóst ekki við því, að háttv. flm. mundi leggjast á móti hinum brtt. okkar, því að jeg taldi þær svo sjálfsagðar. Það er vitanlegt, að útlendingar hafa þarna mjög mikinn atvinnurekstur og því hvergi trygt, að þeir nái ekki eignarhaldi á þessum stað, nema skorður sjeu við því reistar. En jeg tel það með öllu óviðunandi, að þetta land sje eign annara en ríkis eða sveitarfjelags, og finst það þó rjettara, að ríkið njóti góðs af verðmæti þessa lands. Vænti jeg þess því fastlega, að hv. þdm. geti fallist að minsta kosti á þessar síðari brtt. okkar, þó að jeg teldi best farið, ef 1. brtt. næði einnig fram að ganga.