25.02.1929
Neðri deild: 7. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3524)

32. mál, útvarp

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi vitanlega ekki ástæðu til annars en að taka vel í tillögu hv. 2. þm. Rang. Jeg er honum sammála um, að þetta sje hið merkasta menningarmál og ákjósanlegast væri að geta hrundið því í framkvæmd sem allra fyrst. Jeg skal geta þess, að 1. júlí síðastl. var, í samráði við landssímastjóra, opnuð lítil útvarpsstöð í sambandi við loftskeytastöðina hjer. Hún kostaði 3000 krónur, en nægir þó til þess að varpa út nauðsynlegustu frjettum, svo sem veðurfregnum til skipa. En auðvitað er þetta aðeins bráðabirgðaúrlausn.

Hv. flm. nefndi tvær ástæður dráttar þess, sem orðið hefir á þessu máli: Drátt þann, sem orðið hefir á lántöku, og veikindi landssímastjóra. En aðalástæðan er þó ótalin. Svo er málum háttað, að áður en stöðin verður reist, þarf að ákveða til frambúðar, hvaða bylgjulengd á að nota. En bylgjulengdina getum við Íslendingar ekki ákveðið einir. Samkomulag um hana þarf að fást á alþjóðafundi. Það hafði verið ákveðið í fyrra að halda slíkan alþjóðafund í Róm 10. okt. síðastl., og var ákveðið, að þangað færi maður hjeðan. En af orsökum, sem mjer eru ókunnar, var fundi þessum frestað, en verður nú haldinn í Prag í aprílmánuði næstk. Hefir þegar verið gerð ráðstöfun til þess, að þar mæti fulltrúi fyrir hönd okkar Íslendinga. Gert er ráð fyrir, að til þess verði valinn verkfróður maður í þessum efnum, Gunnlaugur Briem símaverkfræðingur. En áður en úrslit þess fundar eru kunn, er ekki hægt að hefjast handa um byggingu stöðvarinnar. Veikindi Magnúsar heit. Kristjánssonar fjmrh. áttu mikinn þátt í því, hve undirbúningur lántökunnar dróst. Eins og hv. þingdm. er kunnugt, er hjer um mikið fje að ræða, því að lægri áætlunin um stofnkostnað stöðvarinnar nemur 527 þús. kr. og sú hærri 764 þús. kr., og rekstrarkostnaður er áætlaður upp undir 100 þús. kr. á ári. Vona jeg, að hv. flm. skilji, að hjer er eigi um vanrækslu að ræða af hálfu stjórnarinnar. Hún hefir í þessu máli farið að tillögum þeirra sjerfróðu ráðunauta, sem völ er á, og mun gera svo framvegis að svo miklu leyti sem unt er.