04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (3540)

9. mál, kaup á áhöldum til þess að bora með eftir heitu vatni

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Fjvn. hefir athugað þáltill. þessa og leggur samhuga til, að hún verði samþ. Að vísu kom fram bending um það í n., að rjettara hefði verið, að heimild þessi hefði komið fram í frv. formi, en enginn ágreiningur var þó gerður um það efni.

Þessi till. gengur út á það, að ríkið kaupi áhöld til að bora með í jörð eftir heitu vatni og gufu. Er svo gert ráð fyrir að lána sveitarfjelögum o. fl., sem leita vilja að jarðhita, áhöld þessi. Það er vitanlegt, að á síðari árum hefir mönnum orðið það æ ljósara, hvílíkur fjársjóður er fólginn í hverum þeim og laugum, sem til eru víðsvegar um land, og menn eru meira og meira að notfæra sjer þetta. Á síðari árum hefir og þekking vaxið til muna á þessum hlutum, og menn hafa komist að raun um það, að hita þennan mætti auka með því að bora eftir honum. Þetta hefir verið gert víða úti um lönd, þar sem jarðhiti er. Og hjer á landi hefir þetta verið gert hjer nálægt Reykjavík, og gefur sú tilraun vonir um, að mikils megi af þessu vænta. Nefndin leit líka þannig á málið og telur það svo merkilegt, að sjálfsagt sje, að ríkið styðji framgang þess með því að kaupa áhöldin, sem mundu kosta 15–20 þús. krónur, einkum með tilliti til þess, að kostnaður sveitarfjelaga eða þeirra, sem nota áhöldin, verður allmikið, þar sem þau eru dýr í rekstri. Vitneskja lá fyrir n. um, að þessara áhalda myndi verða og væri þegar óskað. Í grg. við till. er þess getið, að Flóa- og Skeiðaáveitunefndin hygðist leita að heitu vatni til afnota fyrir mjólkurbú það, sem þar er verið að stofna. Á Akureyri er áhugi fyrir hinu sama til afnota fyrir bæinn. Þá hefir og heyrst, að Vestmannaeyingar óski eftir að fá áhöld þessi, til að leita eftir fersku vatni úr jörðu. Þetta bendir á, að áhöld þau, er hjer um ræðir, myndu verða notuð víða. Annars er málið einfalt og kunnugt hv. þdm., og þýðir því ekki að fara fleiri orðum um það. Aðeins vil jeg fyrir hönd fjvn. óska þess, að till. verði samþ.