21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3554)

79. mál, vatnsveita á Hvammstanga

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg álít, að hv. 4. landsk. hafi nú talsvert bætt um fyrir sjer með þessu „recepti“, sem hann las upp. Og jeg held, að hann hefði átt strax að láta það fylgja till. Jeg get ekki neitað því, að það var dálítið broslegt með þetta brjef, sem hv. þm. kvaðst hafa fengið að norðan og enginn hefir fengið að sjá. En sem sagt hefir hann nú nokkuð bætt úr þessu. Þótt jeg hafi nú máske ekki tekið máli þessu mjög alvarlega, þá get jeg þó upplýst það, að væntanlega getur þessi rannsókn farið fram fyr en hv. flm. æskir. Jeg tel sem sje víst, að hægt yrði að koma þessu í verk í vor eða sumar, því vafalaust á vegamálastjóri eða aðstoðarmenn hans leið þarna um í sumar.

Hv. 4. landsk. þm. sagði, að við í stjórnarflokknum værum eitthvað „nervösir“ út af þessari þáltill. hans. Jeg held, að það sje nú mjög orðum aukið. Hjer er ekkert annað á ferðinni en lítilfjörlegar kjósendaveiðar af meinlausasta tægi. Og þesskonar smábrellum eigum við að venjast hjer á Alþingi.