28.02.1929
Neðri deild: 10. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (3561)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Pjetur Ottesen:

Eins og menn muna, flutti hv. þm. Snæf. frv. á síðasta þingi um byggingu nýs strandvarnarskips. Var svo ákveðið í því frv., að þegar strandvarnarskipin yrðu þannig orðin þrjú, þá skyldi eitt þeirra vera að staðaldri á svæðinu frá Látrabjargi að Reykjanesi, eða með öðrum orðum annast strandvarnir á Faxaflóa og Breiðafirði. Þetta ákvæði var tekið út úr frv. í Ed., og veit jeg því ekki, hvort þessu ráði verður fylgt, er hið nýja skip kemur, en þó svo væri, er því ekki að neita, að mjög eykur það á öryggi smábátaveiðanna hjer við innanverðan Faxaflóa að hafa gæslubát eins og till. þessi fer fram á.

En eins og till. er orðuð álít jeg, að bátnum sje ætlað alt of þröngt svið. Nágrenni Reykjavíkur, eins og orðað er í till., mundi aðallega verða skilið við suðursviðið og innri brún, sem sje það grunnmiðasvæði, er bátarnir frá Reykjavík stunda veiðar á.

Nú hefir á Akranesi, engu síður en hjer, aukist þessi smábátaútvegur, og þótt þeir sæki önnur mið en Reykvíkingar, er þeim jafnmikil þörf á aukinni landhelgisgæslu. Jeg hefi því hugað mjer að koma með brtt. við tillgr., að við „nágrenni Reykjavíkur“ bætist: „og Akraness“. Ætti gæslubáturinn þá að hafa eftirlit á þeim miðum, sem smábátarnir frá Akranesi og Reykjavík sækja á.

Það, sem hjer er farið fram á, leiðir að sjálfsögðu af sjer nokkurn aukinn kostnað.

Í till. er gæslutíminn ákveðinn frá 1. ágúst til 1. nóvember ár hvert. Jeg hygg, að sá tími sje ekki sem heppilegast valinn, auk þess sem það er alt of stuttur tími. Kostnaðarmestu veiðarfærin, sem smábátarnir nota, eru án efa þorskanetin. Þorskveiðar stunda bátarnir venjulega frá því fyrst í apríl og fram í maímánuð, enda eru þorskveiðarnar arðvænlegastar og sá tími því dýrmætastur og þar af leiðandi mest nauðsyn á að varna veiðarfæraspjöllum. Virðist mjer, að athuga þyrfti, hvort ekki væri hægt að lengja gæslutímann, eða þá að minsta kosti, hvort ekki mætti skifta honum dálítið öðruvísi niður en gert er í till. Býst jeg við, að það yrði til sameiginlegra hagsmuna fyrir bátaútveginn bæði hjer og á Akranesi.