28.02.1929
Neðri deild: 10. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (3566)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Hákon Kristófersson:

Það er fjarri mjer að vilja amast við þeirri till., sem hjer liggur fyrir. Jeg get tekið undir það með hv. 1. þm. Skagf., að sjálfsagt sje, að till. fari til n., og vil jeg mælast til þess, að sú n. taki það til athugunar um leið, hvort ekki væri eins mikil nauðsyn á slíkri gæslu á öðrum fjörðum og flóum en Faxaflóa, til dæmis á Breiðafirði. Annars má það undrum sæta, að eftir að þriðja landhelgisgæsluskipið er komið, skuli æ þurfa að vera hjer 2 bátar ár hvert fram í nóvember, að því ógleymdu, að eitthvað mætti gera úr vörslu hins danska varðskips. (PO: Það er víst óþarfi að gera mikið úr því). Það má vera, að svo sje. En til hvers er það þá hjerna? Jeg hafði þó hugsað mjer, að stj. þættist eiga einhvern íhlutunarrjett um það, hvort það lægi altaf inni á höfnum. Annars verð jeg að segja það, að jeg treysti Dönum svo til alls góðs, að jeg hafði búist við, að þeir intu þetta starf af hendi með heiðri og sóma, enda var við því búist þegar samningarnir um þeirra landhelgisvörslu voru gerðir. Jeg hafði gert mjer vonir um, að eftir að síldarvörslu væri lokið, þá gætu 3 skip annað landhelgisgæslunni án báta. Mjer skilst, að í till. sje það bundið, að hjer skuli framvegis ár hvert halda uppi þessum gæslubát. Mjer þætti vel við eiga, að bætt sje inn í till. „eftir því sem þurfa þætti“. Ef reynslan sýndi það, að ekki væri þörf á bátunum, þá á vitanlega ekki að halda þeim úti. Hinsvegar get jeg vel tekið undir það með hv. þm. Borgf. og hv. flm., að þessa muni vera nauðsyn eins og nú standa sakir. En jeg vil biðja hv. n. að taka til athugunar, hvort ekki þyrfti að líta á fleiri staði en Faxaflóa í þessu efni. Þó að hann sje næst Reykjavík, á hann ekki fyrir því að hafa neina sjerstöðu umfram aðra firði og flóa.