22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3570)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Sjútvn. hefir haft til meðferðar till. á þskj. 11, þar sem farið er fram á aukna landhelgisgæslu við innanverðan Faxaflóa í nágrenni við Reykjavík. Eins og sjá má af nál. á þskj. 157, er n. sammála um það, að full þörf sje að hlynna að bátaútveginum hjer í Reykjavík — og raunar líka að sjálfsögðu annarsstaðar við Faxaflóa — með aukinni landhelgisgæslu, þar sem hennar er þörf. Er nefndin því fylgjandi, að tekið sje vel í þessa málaleitun Bátafjelags Reykjavíkur. En frá því er erindið í raun og veru komið til þingsins, flutt af nokkrum þm. kjördæmisins.

Það er hreint ekki svo lítill liður í framfærslu manna hjer í Reykjavík, bátaútvegurinn, sem þegar er kominn hjer á stofn. En landhelgisgæslan á bátamiðunum á auðvitað að koma að gagni öðrum veiðistöðvum hjer í nágrenni, sem sækja á svipuð mið. Er því sennilegt, að gæslubátur sá, sem fenginn yrði, ætti að gæta ekki einungis grunnmiða fyrir bátaútveg Reykjavíkur, heldur einnig miða nærliggjandi verstöðva, Akraness, Álftaness, Hafnarfjarðar o. s. frv.

Hjer er átt við grunnmiðin innanvert í Faxaflóa. En vitanlegt er það, að sunnanvert í Faxaflóa hefir undanfarin ár verið haldið uppi sjerstakri gæslu. Álítur n., að ekki komi til neinna mála fyrir þessara hluta sakir að draga nokkuð úr þessari gæslu, sem hefir átt sjer stað. Hinsvegar þótti n. till. nokkuð þröng, — einskorða sig við nokkuð þröngt svæði, þegar talað er um „nágrenni Reykjavíkur“. Hefir hún því slept þeirri orðun í brtt. þeirri, sem fyrir liggur á þskj. 157. En á hinn bóginn er haldið hugtakinu „í innanverðum Faxaflóa“, og ætlast n. til þess, að bátaútveginum í Reykjavík geti fyrir því komið þessi gæsla að fullum notum.

Það ber svo vel við, að um leið og þetta framtak með bátaútveginn er að aukast að nýju hjer við flóann, þá er útlit fyrir, að í náinni framtíð verði betri markaðsskilyrði fyrir þann fisk, sem kemur hjer nýr á land, og er gleðilegt til þess að vita. Má því segja, að enn meiri ástæða sje til að gera þennan útveg sem öruggastan, þegar veruleg hagnaðarvon er annarsvegar. Þessir bátar, sem daglega ganga hjeðan, eru flestir smáir og opnir. Gæslubáturinn, sem ver fiskimið þeirra, gæti líka oft orðið þeim að liði sem björgunarskip, eins og á sjer stað annarsstaðar við land, og eins og varðskip landsins yfirleitt hafa björgunarstarfsemi jöfnum höndum við landhelgisgæsluna. Þessi tvennskonar starfsemi ætlast n. til, að fjelli vel saman í innanverðum Faxaflóa, því að þótt afdrep sjeu allgóð við flóann, þá koma vitanlega svo hörð veður, að hættuleg geta orðið opnum bátum.

Líklegt er, að með aukinni landhelgisgæslu fylgi aukið öryggi fyrir þá, sem atvinnuveginn stunda, og er það enn ein ástæða til að sinna máli þeirra sjómanna, sem hlut eiga að máli.

Í till. var fastskorðaður sá gæslutími, sem Bátafjelag Reykjavíkur fór fram á. En n. virðist rjettara að láta hann vera nokkuð óbundinn, en leggur áherslu á, að vörslunni sje haldið uppi, þegar þörfin er brýnust. Og í framkvæmdinni er vitanlega ætlast til þess, að það verði samkomulagsatriði milli þeirra, sem hjer eiga hagsmuna að gæta, og ríkisstj.

Jeg ætla, að það sje lítil þörf að fjölyrða meira að þessu sinni fyrir hönd n. um málið, en bendi á það, að n. leggur til, að till. sú, sem hjer er um að ræða, sje samþ. með þeirri brtt., sem þskj. 157 gerir grein fyrir.