22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (3572)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Sigurjón Á. Ólafsson:

Örfá orð til árjettingar því, sem hv. frsm. benti á. Það er um tímabilið, sem þessi gæsla skal standa yfir. Í till. er farið fram á tímabilið frá 1. ágúst til 1. nóvember. En í brtt. er þetta ekki bundið ákveðnum takmörkum. Nýlega hefi jeg fullvissað mig um það, að þessarar gæslu er þörf jafnvel nú um vetrarvertíðina. Tveir formenn hafa nýlega sagt mjer þá sögu, að þegar þeir lögðu net sín á takmörk landhelgilínunnar, hefðu þeir ekki þorað að eiga þau þar liggjandi, eins og venja er til, vegna þriggja útlendra togara, er voru að fiska þar í nánd. Þetta þýðir það, að jafnvel á þessum tíma, meðan netafiskirí er, sem stendur yfir fram í apríl, þá má gera ráð fyrir þörf á gæslu hjeðan.

Jeg vil geta þess, að það liggur í hlutarins eðli, að það verður að vera samkomulag milli stj. og þeirra, sem gera út bátana, hvenær gæsla er og hverskonar báta skal nota til gæslunnar.

Akranesmiðin eru þau mið, sem reykvískir bátar sækja á suma tíma árs. Og þegar talað er um Faxaflóa, þá mætti kannske taka með alla leið suður undir Strönd. Þetta er stórt svæði, og liggur í hlutarins eðli, að nægt verkefni er það fyrir einn bát að gæta, svo að vel sje.

Hv. frsm. gat þess, að svona gæslubátur ætti að geta verið nokkurskonar björgunarbátur, ef svo bæri undir, fyrir þessa opnu vjelbáta. Þetta er aths., sem vert er að gefa gaum, því að þessir opnu vjelbátar munu sækja nokkuð djarft á mið, þegar aflavon er góð. Og allir þekkja, að skollið geta skyndilega á svo vond veður og úfinn sjór, að full þörf sje að hafa slíkan bát á varðbergi. Það þarf ekki mikið út af að bera, vjel bili eða eitthvað verði að, til þess að bátarnir sjeu í háska staddir. Bátarnir eru nú þegar orðnir margir, og fjölgar sennilega mjög með bættum skilyrðum. Það er því ekki að ófyrirsynju, að lagt er til, að eftirlitsbáturinn hafi einnig björgunarstarfsemi með höndum, þegar þurfa þykir.