22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (3574)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það eru aðeins örfá orð vegna undirtekta hv. dm., flm. og fleiri. Jeg vil taka það fram, að með till. n. er gengið inn á það meginatriði, að koma á sjerstakri landhelgisgæslu á innanverðum Faxaflóa. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að gæslan væri aðallega miðuð við fiskimið Reykvíkinga, Seltirninga og Akurnesinga samkv. þessari till. Jeg þekki nú ekki miðin svo til hlítar, að jeg geti sagt, hvar sje mest þörf gæslu á miðunum við Faxaflóa, en jeg vil benda á, að n. ætlaðist til, að gæslan væri einkum miðuð við smábátamið Reykvíkinga og nærliggjandi verstöðva.

Hv. þm. Borgf. talaði um, að einum báti væri ofvaxið að verja í senn suður- og innmiðin í flóanum. Þetta er sjálfsagt rjett. En hjer er einmitt stigið fyrsta sporið í áttina til fullkomnari vörslu, og jeg býst við, að fyrirkomulagsatriðin í heild verði aldrei í framkvæmdinni rígbundin svo við þessa till., að ekki verði altaf opin leið til þeirra breyt., sem þurfa þykir og sem reynslan sýnir, að eru nauðsynlegar. Því er nú svo varið, og að minsta kosti er það svo í mínu kjördæmi, að aka þarf seglum eftir vindi hvað snertir gæsluna og haga henni ávalt einungis eftir því, hvað best hentar. Og jeg efast ekki um, að ríkisstj. annarsvegar og hinsvegar þeir, sem hagsmuna eiga að gæta á þessu sviði, muni geta komið sjer saman um hin einstöku fyrirkomulagsatriði. Sjútvn. hefir lagt til, að till. væri orðuð rýmra, sem sje, að gæslan skuli fara fram þegar þörfin er brýnust. Auðvitað er slíkt einungis bundið þeim upplýsingum, sem þá kunna að koma fram, og fyrirbyggir að engu leyti þær fyrirkomulagsbreyt., sem framtíðin og reynslan sýna, að nauðsynlegar sjeu.

Jeg býst við, að hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf. hafi rjett fyrir sjer, að mikil þörf sje gæslu fyrir smábáta á netaveiðatímanum. Við Vestmannaeyingar vitum vel og þekkjum af eigin reynslu, hversu brýn þörf er á slíkri gæslu hjá okkur, og svo mun vera víðar.

Jeg vona svo að lokum, að till. n. sje svo rúmgóð, að hagsmunir þeirra, sem hlut eiga að máli, rekist ekki á, og að báðum eða öllum aðilum megi lánast að komast niður á það fyrirkomulag, sem best svari kröfum tímans.