22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3576)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Hákon Kristófersson:

Eins og jeg hefi áður tekið fram, er það fjarri mjer að mæla á móti þessari till. En jeg vænti þess, að hv. flm. taki það ekki illa upp fyrir mjer, þótt jeg segi, að önnur fiskimið við strendur þessa lands eigi einnig sjálfsagða kröfu á vernd, líkt og hjer er farið fram á á Faxaflóa. Faxaflói er ekki hinn eini fjörður á landinu, sem þarf gæslu, auk þess sem þegar er einn bátur þar til eftirlits, og till. gerir ráð fyrir að bæta öðrum við. Til samanburðar skal jeg geta þess, að aðeins einum báti er ætlað að hafa gæsluna á hendi meðfram öllum Vestfjörðum, frá Horni og suður fyrir Patreksfjörð, og má þá af líkum ráða, hversu mikill munur er á starfssviði því, er þeim báti er ætlað, þegar borinn er saman Faxaflói, þó breiður sje, og alt svæðið fram með nefndri strandlengju. Og við Breiðafjörð er bókstaflega engin gæsla. Jeg vil því mega vænta þess, að hv. flm., að þessu athuguðu, muni ekki taka það illa upp fyrir okkur, sem hagsmuna annara hjeraða eigum að gæta, þótt við bærum fram viðaukatill. við þessa till., um aukna gæslu meðfram Vestfjörðum. Jeg geri ráð fyrir, að menn geti orðið á eitt sáttir um, að þess væri full þörf. Það er alveg rjett, að þessi bátur, sem till. gerir ráð fyrir, getur oft orðið bátum að liði í sjávarháska, og slíks væri ekki síður þörf meðfram Vestfjörðum.

Að lokum þetta: Jeg býst ekki við, að jeg eða aðrir andmælum þessari till., en jeg vil hinsvegar mega vænta þess, að hv. flm. líti sömu sanngirnisaugum á væntanlega viðaukatill. eins og við höfum gert að því er snertir till. þeirra.