22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (3577)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er rjett að svara hv. þm. Barð. nokkrum orðum. Hann talaði um, hvernig yrði tekið í væntanlega viðaukatill. um landhelgisgæslu fyrir Vestfjörðum. Jeg skal þá taka það fram, að hjer var um að ræða ákveðna till. um gæslu á ákveðnu svæði, og var því tæpast ástæða til að blanda öðru þar inn í eins og till. lá fyrir. Það ber að vísu að líta á sjálfsagðan rjett allra verstöðva landsins í þessu efni, enda mun það mála sannast, að flestum, ef ekki öllum, miðum við landsins strendur er þörf á aukinni gæslu. En á það ber þó sjerstaklega að líta, að Faxaflói er um vissan tíma árs sjerstaklega eftirsóttur, og með tilliti til þess smábátaútvegs, sem hjer hefir risið upp á síðari árum, er það fyllilega rjettmætt og sanngjarnt, að tilraun sje gerð til að varðveita grunnmiðin fyrir bátana. Á það má og líta í þessu sambandi, að unnið er að því jafnvel að alfriða þennan flóa. Jeg hygg, að stefnt sje og verði að því, í von um framgang, en um líkurnar er mjer ekki kunnugt. Þó er ekki ósennilegt, að um leið og alþjóðafiskirannsóknirnar vinna að auknum skilningi manna á hrygningarsvæðum fiskanna og lifnaðarháttum yfirleitt, verði það æ ljósara, að alfriða þurfi sum svæði. Síðustu fiskirannsóknir hafa ekki óverulega breytt hugsunarhætti manna um það, hvernig beri að fara með miðin. Ytra hafa til skamms tíma heilir flóar verið alfriðaðir, t. d. Moray-flóinn, sem hefir verið, friðaður fyrir ágangi þeirra skipa, sem bresk lög ná til, og til tals hefir komið að friða heil svæði í Norðursjó, enda þótt enn hafi ekki fengist alþjóðasamþykki til þess. Þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið á bæði „Dana“ og „Þór“, benda eindregið til þess, að nauðsynlegt sje að fá Faxaflóa friðaðan. Og þess má vænta, að ekki líði enn á löngu, áður en þroski manna og skilningur á þessum efnum komist á svo hátt stig, að alþjóða samþykki fáist til að alfriða Faxaflóa.