03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Halldór Stefánsson:

Jeg vil leyfa mjer að gera nokkra grein fyrir minni afstöðu til þessa máls. Þegar till. þessi kom fram, kom það mjer satt að segja undarlega fyrir sjónir, að á innanverðum Faxaflóa skyldi vera þörf aukinnar gæslu. Þar er mest sigling allskonar skipa og auk þess hefir verið þar undanfarið sjerstakur bátur til eftirlits. Jeg hefi þó greitt till. atkv., einkum með tilliti til þess, að umr. um málið kynnu að færa mjer nýjar upplýsingar, sem máli skiftu. Við umr. hafa fróðir menn og sem þessum málum eru gagnkunnugir haldið því óhikað fram, að þörf væri aukinnar gæslu um þessar slóðir, og hefir því ekki verið mótmælt. En ef svo er hjer á fjölförnustu siglingaleið — og þar á meðal varðskipanna — hvað mun þá annarsstaðar? — Ef þetta verður samþ., þá verður að gera ráð fyrir, að Alþingi sje bundið við að taka eins vel í samskonar málaleitanir frá öðrum hjeruðum landsins. Það verður að ganga út frá þeirri hugsun, eins og hv. þm. Barð. hefir vikið að, að sjóndeildarhringur hv. þm. í þessum málum nái lengra en yfir Faxaflóa einan. Jeg hefi greitt þessari till. atkv. með þeirri hugsun, að ef þingið samþ. hana, þá myndi það að sjálfsögðu sýna sama skilning og velvild á öðrum slíkum málaleitunum. Hv. frsm. sagði það líka í síðustu ræðu sinni, að hægt væri að benda á tíu slíka staði eða fleiri, sem með sama rjetti gætu krafist aukinnar landhelgisgæslu. Sem sagt: Í upphafi skyldi endirinn skoða, og ef Alþingi er ekki reiðubúið til þess að gera öllum fiskimiðum jafnt undir höfði í þessu efni, þá er vafasamt, hvort rjett sje að taka þetta svæði eitt út úr. Gefst nú kostur á að heyra undirtektir hv. þdm. undir þessa till., og má þar af nokkuð marka, hver er vilji Alþingis í þessum efnum alment. Jeg mun ekki á þessu stigi málsins taka endanlega afstöðu til þessarar till., fyr en betur er sýnt, hvort þingið muni reiðubúið að taka afleiðingum af samþ. þessarar till.