03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (3592)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg vil ekki láta það undir höfuð leggjast að geta þess, að frá mínu sjónarmiði er b-liður brtt. hv. þm. Barð. með öllu óþarfur. Við Vestfirði hefir verið haldið uppi góðri gæslu síðan 1924, og þó ekki sje gerð um það þingsályktun nú, er engin hætta á, að gæslan verði feld niður. Vegna þess að hjer er um að ræða í b-liðnum gæslu, sem enginn stendur á móti, þá get jeg látið mjer í ljettu rúmi liggja, hvort hann fellur eða ekki; gæslan heldur áfram engu að síður eins og áður. Jeg vil samt ekki með þessu andmæla brtt. hv. þm. Barð., heldur vekja athygli hv. þdm. á því, að þó að hún falli, er gæslan ekki í neinni hættu sem stendur, og sú gæsla, sem nú er, hefir komið að stórmiklu gagni hingað til.