25.02.1929
Efri deild: 7. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (3599)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Flm. (Jón Baldvinsson):

Fyrir svo að segja hverju hinna undanfarandi þinga hafa legið bænarskrár frá embættismönnum ríkisins um að bæta kjör þau, er þeim eru ákveðin samkv. launalögunum frá 1919. Eftir þeim var þeim ákveðin dýrtíðaruppbót, er átti að gilda til 1925, en þá mun hafa verið gengið út frá því, að launalögin yrðu endurskoðuð um leið.

En í þinginu hefir ætíð verið einhver ótti við að „opna launalögin“, eins og það hefir verið orðað á þingmáli, og munu þm. hafa hræðst það útgjaldaflóð, er af því mundi leiða fyrir ríkissjóðinn, og óttast, að það yrði honum um megn. Þrátt fyrir nauðsyn þess að endurskoða lögin hefir það þó ekki verið gert, en lögin látin fljóta áfram í þessu vandræða ástandi. Í þess stað hafa í fjárlögunum verið veittar ýmsar uppbætur, ýmist einstökum mönnum eða heilum flokkum embættis- eða starfsmanna. Nú er talað um að endurskoða lögin 1930, en eftir því, sem á undan hefir farið, er eigi ólíklegt, að því verði enn frestað, og mun mörgum þm. hrjósa hugur við að ganga í að samþ. launabætur handa embættismönnum eins og gera þarf — svona rjett fyrir kosningar.

Á síðastl. ári var dýrtíðaruppbót þessara manna lækkuð svo að nemur rúmlega 5% á launum þeirra, og það þótt lækkun á raunverulegum útgjöldum heimilanna næmi aðeins 1% samkv. skýrslu hagstofunnar. Er slíkt eigi lítill tekjumissir fyrir þá, er lágt eru launaðir, t. d. þá, er ekki hafa hærri árstekjur en 3000 kr., að missa alt að 150 kr. Nemur sú upphæð útsvari og öðrum opinberum sköttum þeirra, en þegar menn hafa svo lág laun, munar um alt.

Okkur flm. finst lækkun þessi ósanngjörn og höfum því borið fram till. til þál. um, að Alþingi heimili ríkisstj. að greiða starfsmönnum ríkisins sömu dýrtíðaruppbót á laun þeirra 1929 og árið 1928. Útgjaldaauki, er af þessu mundi leiða fyrir ríkissjóð, yrði um 100000 kr., og mun það nærri lagi, því að þær upplýsingar hefi jeg fengið hjá skrifstofustjóra fjármálaráðuneytisins.

Nú hefir árið 1928 verið mikið tekjuár fyrir ríkissjóð og nemur tekjuafgangur um ½ milj. kr. Ætti Alþingi því að vera ljúfara að samþ. þáltill. þessa en ef fjárhagur ríkissjóðs hefði verið bágborinn, einkum þar sem útlit er fyrir góðæri þetta ár og líkur til þess, að ríkissjóður megi vænta góðra tekna eins og ætíð eftir góðæri, a. m. k. mun tekjuskatturinn verða ríkissjóði drjúgur í ár.

Sumir kunna að hafa það á móti till. þessari, að hún komi í bága við lögin um dýrtíðaruppbót frá 1919. Jeg lít svo á, að með till. sje stj. heimilað að bæta kjör þessara manna, en lögin um dýrtíðaruppbót eru eins óbreytt fyrir þessu, og hefir næsta Alþingi alveg frjálsar hendur til breytinga og endurskoðunar, þótt till. þessi yrði samþ. nú. Ennfremur finst mjer mæla með till., að í fjárlögum 1929 er áætluð jafnhá fjárhæð vegna dýrtíðaruppbótar og gert var í fjárlögum 1928, svo að útkoman reikningslega á að vera hin sama, og er það ætíð nokkurs virði, er reikningar og áætlanir fjárlaganna geta staðist á.

Verði till. þessi samþ. af Alþingi, skoðum við flm. það sem fullkomna útgjaldaskipun til stj., þótt till. sje í heimildarformi, og það eins þótt stj. kunni að vera á móti till.

Jeg vil ekki skilja svo við till. þessa, að jeg ekki aðeins minnist á erindi það, er starfsmenn ríkisins hafa sent Alþingi. Þó verður það ekki eins og skyldi, því að erindið kom ekki fyrr en í morgun og jeg því haft lítinn tíma til þess að kynna mjer það. Telja þeir, að þeim sje eigi að fullu bætt eftir till. á þskj. 30, og halda því fram, að dýrtíðaruppbótin eigi ekki að vera 34%, heldur 51%, og færa að því nokkrar líkur, að 51% dýrtíðaruppbótin sje sú, sem fara ætti eftir, en af því að jeg hefi ekki nógu rækilega kynt mjer þetta langa erindi þeirra, skal jeg ekki fara frekar út í það.

Mjer væri kært að heyra álit hæstv. stj. í þessu máli, en að lokinni þessari umr. vildi jeg mælast til, að till. yrði vísað til fjhn. þessarar hv. deildar.