09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Gunnar Sigurðsson:

Jeg ætla að taka fram það, sem jeg hefi minst á við báðar fyrri umr. um að sameining veðdeilda beggja bankanna sje sjálfsögð. En jeg hefi ekki viljað bera fram brtt. að þessu sinni, af því að búið er að loka flestum veðdeildarflokkum Landsbankans, svo að erfitt er að taka þá af þeim núna. Mjer þykir vænt um að hæstv. forsrh. tók vinsamlega í þetta og skildi, að það væri nauðsynlegt að hafa öll brjefin á sömu hendinni.

Þá ætla jeg að minnast lauslega á brtt. n. Það er síður en svo, að jeg hafi nokkuð að athuga við fyrstu brtt. Sú leið, sem þar er stungið upp á, er miklu betri en að fara að stofna fóðurbirgðafjelög, því að reynslan hefir sýnt, að þau hafa gefist misjafnlega vel. Það væri frekar ástæða til að hugsa til þeirra, þegar samgöngur batna. Hinsvegar er jeg alveg andvígur annari brtt. hv. n. og vona, að hún verði aldrei samþ., enda virðist hv. frsm. vera í efa um, hvort forseti taki hana til greina. Jeg get ekki skilið, án þess að jeg telji ósanngjarnt að krefjast þess, að bankinn fari varlega, að hjer sje óvarlegar að farið en venja er til um lántökur. Það er óvarlegra að lána út á fiskinn í sjónum en þetta. Mjer er vel kunnugt um það, að minsta kosti í þeim bygðarlögum, sem jeg þekki best til, hvað það er erfitt fyrir unga menn að þurfa að hafa mjög lítinn bústofn. Tilkostnaður er að mestu leyti sá sami, en eftirtekjur helmingi minni. Og einmitt þetta yrði til þess að stórauka ágóðann af búum, einkum hjá þeim, sem eru að byrja búskap. Það er hættulegt að blanda hreppsnefndarábyrgð inn í þetta. Þeim, sem hefðu fullan rjett á hjálp, gæti þá verið neitað um hana af hreinum pólitískum ástæðum. Jeg vil því mjög eindregið leggja til, að ef hæstv. forseti lætur þessa brtt. koma til atkv., verði hún feld.