17.04.1929
Efri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (3603)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson):

Í örstuttu nál. á þskj. 339 hefi jeg tekið fram þrjú atriði, er jeg tel snerta þessa þáltill. Í fyrsta lagi það, að sem allra fyrst beri nauðsyn til þess að endurskoða embættis- og starfsmannakerfi ríkisins, og launakjörin jafnframt, og í öðru lagi, að samskonar breyt. sem þær, er felast í þáltill. þessari, gætu orðið til þess að tefja fyrir framkvæmdum í þessum efnum, og í þriðja lagi, að upphæð sú, sem farið er fram á í þáltill., að greidd verði embættis- og starfsmönnum ríkisins, sje svo lág, að einstaklingana muni ekkert um hana, þar sem hún skiftist á milli svo margra, en aftur á móti muni ríkissjóð töluvert um hana. Fyrir þessu áliti mínu vildi jeg nú gera stutta grein.

Á síðari tímum hafa komið fram allháværar raddir um það, að endurskoða þurfi launalögin, og jafnframt að bæta þurfi launakjörin. Nýjasta sönnun þessara krafna er skjal, sem liggur fyrir þinginu, prentað með þskj. 58, þar sem stjórnarnefnd starfsmannasambands ríkisins gerir grein fyrir því, að laun embættis- og starfsmanna ríkisins sjeu alt of lág. Þannig telur hún t. d., að dýrtíðaruppbótin, sem var 1928 40%, hefði átt að vera samkv. rjettum útreikningum 126%. Þó slær nefndin af þessu vegna launahækkunar þeirrar, er varð 1919, og færir sig niður í 93%, en telur það þó ekki sanngjarnt. Í skjali þessu eru einnig færðir nokkrir búreikningar, t. d. þriggja embættismanna hjeðan úr Reykjavík, og er þar yfirleitt komist að þeirri niðurstöðu, að maður með meðalheimili, 6 manns, þurfi að hafa um 14 þús. kr. í árstekjur, svo að viðunandi sje. Eftir þessum búreikningi mun láta nærri, að hækka þurfi laun embættismanna um helming frá því, sem þau eru nú, eða voru síðastl. ár. Um einn þeirra manna, er búreikningana hefir fært, er þess getið, að laun hans að meðtalinni dýrtíðaruppbót hafi árið 1928 verið rösklega 6500 kr. Það virðist því alt benda í þá átt, að nauðsyn beri til að taka launakjör embættis- og starfsmanna ríkisins sem fyrst til alvarlegrar athugunar. En þá hlýtur að vakna sú hugsun, að jafnframt því, sem launakjör embættismanna eru endurskoðuð, þurfi einnig að rannsaka alt embættakerfið.

Trúnaðarmenn starfsmannasambandsins geta þess í álitsskjali sínu, að fyrsta úrræðið, sem hinir lágt launuðu embættismenn grípi til til þess að bæta úr brýnustu þörf, sje aukavinna. Þetta bendir á, að verulegur hluti þess fjár, sem starfsmenn hins opinbera eyða til lífsframfæris, sje fenginn fyrir vinnu utan embættis. Mjer virðist sú staðreynd benda til þess, að embættunum sje nú svo fyrir komið, að þau gefi mönnunum, sem gegna þeim, ekki aðstöðu til að vinna fult verk. En jeg geri ráð fyrir að allir verði sammála um það, að ríkið geti ekki launað starfsmönnum sínum vel, nema jafnframt sje sjeð fyrir því, að þeir geti beitt kröftum sínum til fulls.

Hv. flm. till. geta þess í grg., að útgjaldaauki ríkissjóðs myndi nema 100 þús. kr., ef dýrtíðaruppbótin yrði 40% eins og í fyrra, í stað 34%, eins og hún er nú eftir vísitölunni. Sje þetta rjett, þá mun það vera svo, að þau embættislaun, sem þessi dýrtíðaruppbót er miðuð við, nema árið 1928 21/3 milj. kr.

Jeg stend í þeirri meiningu, að launa- upphæðin í heild sinni muni vera hærri; en jeg held mjer við þessa upphæð. Það hafa þegar heyrst raddir um, að launin væru nú helmingi lægri en þau þyrftu að vera til þess að gera embættis- og starfsmönnum þjóðarinnar lífvænlegt. Þótt eitthvað sje slegið af þessu, hlýtur þó að verða um mikla útgjaldaaukningu að ræða fyrir ríkissjóð, ef sami starfsmannafjöldi á að haldast og nú er, og ef jafnframt á að gera þeim lífvænlegt við störf sín. Jeg læt mjer nægja að benda á þetta því til stuðnings, að nauðsynlegt sje að endurskoða starfsmannahald þjóðfjélagsins um leið og launakjör starfsmanna. En jeg vil lýsa því yfir sem minni skoðun, að eina leiðin til þess, að starfsmönnum þjóðfjelagsins veitist viðunanleg laun, er sú, að sameina störfin og fækka embættis- og starfsmönnum ríkisins. Jeg álít, að ef ætti að mikill, að eigi yrði undir risið, ef halda á gangandi þeim framkvæmdum, sem nú er unnið að og allir telja nauðsynlegar.

Í öðru lagi lít jeg svo á, að ef þessi þáltill. verður samþ., þá gæti það stuðlað að því, að nauðsynleg endurskoðun á launakerfinu tefðist um skör fram. Vitanlega getur ýmislegt fleira tafið fyrir rannsókninni og því, að niðurstaða rannsóknarinnar komist í framkvæmd. Vil jeg meðal annars benda á það, að verðfesting peninganna er nauðsynlegur undirbúningur undir ákvörðun grunnlauna. Á það hefir verið bent, meðal annars í álitsskjali embættis- og starfsmanna ríkisins, að í nokkur ár hafi gildi peninganna verið stöðugt; það er að vísu rjett, en þó hefir því ekki verið slegið föstu að lögum, og á meðan er tæplega hægt að ákveða endanlega launagrundvöll; meðan gengi peninganna er ekki lögfest, hlýtur það atriði að standa í vegi fyrir ákvörðun og framkvæmd launamálsins.

Jeg lít ennfremur svo á, að alt málamyndakák og hringl með launalögin geti tafið fyrir varanlegum umbótum á þeim. Það má ef til vill segja, að hjer sje um svo smátt að ræða. En hugsanlegt er, að það kynni að verða fundið upp á öðrum breyt. stærri, sem gætu alvarlega tafið framgang aðalmálsins.

Í þriðja lagi hefi jeg haldið því fram, að hjer væri um svo litla breyt. að ræða til bóta fyrir embættismenn, að ekki tæki því að samþ. hana. Hv. frsm. meiri hl. mintist á þetta og sagði, að það væri ekki rjett. Jeg get gengið inn á, að það sje ekki bókstaflega rjett, að embættismennina muni ekkert um þetta. En þegar þessi 200–300 kr. uppbót handa hverjum embættismanni er borin saman við kröfur starfsmannanna, þá er hjer um sáralítið að ræða. Og ef álíta má, að þessi breyt. ásamt öðru gæti tafið endurskoðun launalaganna, þá mundi, frá sjónarmiði embættismanna sjeð, ekki borga sig að samþ. þessa till. — Í álitsskjali starfsmanna ríkisins eru bornar fram þrennskonar till. til umbóta: aðaltill., varatill. og þrautavaratill. Og jafnvel í þeirri síðasttöldu er þessi leið ekki orðuð. Þeir telja ekki þess vert, að henni sje gaumur gefinn. Jeg þykist þó vita, að þeir hafi haft veður af henni.

Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða meira um afstöðu mína, hún er ljóst afmörkuð á þskj. 339. Jeg ræð hv. deild til þess að fella þáltill., af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi nefnt.