06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3613)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Magnús Jónsson*):

*) Ræðuhandr. óyrirlesið. Jeg vil nota tækifærið, þegar till. þessi kemur úr n., til þess að spyrja hv. frsm. meiri hl., hvað líði frv. um þetta mál, er jeg bar fram tímanlega á þingi og vísað var til fjhn. Það frv. er miklu víðtækara en sú till., er hjer liggur fyrir. Þar er farið fram á að veita stj. ríkari heimild í lögum um þetta efni en þáltill. fer fram á og þar er stungið upp á grundvelli fyrir dýrtíðaruppbótina, sem er reikningslega rökstuddur, en það er að gjalda með dýrtíðaruppbót eftir vísitölu hagstofunnar. Vildi jeg spyrja hv. frsm. meiri hl. — ef aukaþinginu þarna í horninu verður einhverntíma slitið —, hvort n. ætli ekki að afgreiða frv. Ennfremur vil jeg spyrja hæstv. stj., hvort hún muni nota sjer þessa heimild, ef till. verður samþ., og í öðru lagi, hvað hún hygst fyrir um undirbúning launamálsins fyrir næsta þing. Að vísu er það skylda að endurskoða launalögin fyrir næsta þing, en jeg veit ekki, hvort hæstv. stj. leggur til, að skipuð verði mþn. til þess að rannsaka þetta mál, eins og farið hefir verið fram á út ýmsum áttum.

Jeg get þakkað hv. meiri hl. n., að þessi till. var afgr., enda þótt hún sje til sárlítilla bóta í þessu máli. Hinsvegar fanst mjer ræða hv. frsm. minni hl. heldur veigalítil. Þó var það eitt, sem hann sagði langsannast: að hjer væri um mjög litlar bætur að ræða; en að nota það sem rök gegn málinu, að engan muni um þetta nema ríkissjóð, verður að telja mjög lítilvægar ástæður. Einstaklinginn, sem berst í bökkum, munar um alt. En ef ekki er hægt að afgreiða þessa till. sökum þess, hve litlar bætur sjeu í henni fólgnar, hvers vegna stuðlar hv. frsm. minni hl. þá ekki að því, að frv. það, sem hjá n. liggur og felur í sjer miklu ríflegri umbætur, verði afgr.?

Þá sagði hv. frsm. minni hl., að ekki væri vel farið, ef enginn vildi slá af sínum kröfum. Eru starfsmenn ríkisins þá þeir einu, sem standa á móti lækkun dýrtíðarinnar? Þeir eru í hópi hinna fámennustu vinnandi stjetta og hafa enga bót fengið á sínum hag. Og um síðastliðin áramót voru þeir líklega þeir einu, sem urðu að sætta sig við kauplækkun, en aðrir fengu hækkun.

Þá fanst mjer dálítið einkennilegt að heyra hv. frsm. tala um verðfesting krónunnar í þessu sambandi. Það er vitanlegt, að hv. frsm. fylgir stýfingu, en hann gætir þess ekki, að sú ráðstöfun hefir orðið til þess að halda við því verðlagi, sem verið hefir um nokkurn tíma í landinu. Annars ætla jeg ekki að ræða gengismálið við hv. frsm. Það er of víðtækt til þess að farið verði inn á það í umr. þessa máls.

Jeg ætla heldur ekki að tala um launamálið á breiðum grundvelli í þetta skifti. Hinsvegar vil jeg minna á það, að fyrir n. hefir legið frv., sem gerir ráð fyrir því að greiða starfsmönnum ríkisins 51% dýrtíðaruppbót, og geri jeg ráð fyrir, að hv. n. hafi kynt sjer þær ástæður, sem fram voru færðar með því frv. Í fyrsta lagi hefir verið sýnt fram á það, að starfsmönnum ríkisins hefir síðan 1919 verið greidd 1/3 lægri dýrtíðaruppbót en löggjöfin ætlaðist þá til. Í öðru lagi, að starfsmenn ríkisins eru þeir menn, sem langminsta hækkun hafa hlotið að krónutali. Kaup sumra, t. d. prentara, hækkaði um síðustu áramót um 10½%. Þeir hafa dýrtíðaruppbót eftir óskertri búreikningsvísitölu hagstofunnar, sem er nú 128%, en þó hækkaðir, svo að uppbót þeirra nemur nú 138%. Verkamannakaup hefir hækkað að því er virðist um 300%. Ennfremur er það kunnugt, að hásetar á skipum Eimskipafjelagsins hafa fengið 15% hækkun. Landsbankinn greiðir 1/3 hærri dýrtíðaruppbót en ríkið. Reykjavíkurbær sá sjer ekki fært að færa niður dýrtíðaruppbót sinna starfsmanna, og eru þeir þó alls ekki í sambærilegum stöðum við embættis- og starfsmenn ríkisins, að því er undirbúning snertir og það, sem heimtað er af þeim, nema borgarstjóri, og hann hefir 16800 kr. í laun.

Það er harla einkennilegt, að svo skuli hv. frsm. minni hl. segja, að þessir menn, sem hlutfallslega hafa orðið verst úti, spyrni á móti lækkun dýrtíðarinnar! Ennfremur er það sýnt í þessu fylgiskjali, hvað gjalda verður til þess að fá menn í ýmsar trúnaðarstöður annarsstaðar. T. d. fær:

kr.

Forstj. áfengisverslunarinnar 18000,00

Forstjóri landsverslunar.... 12000,00

Útibússtjóri á Akureyri um 14000,00

1. forstj. síldareinkasölunnar 15000,00

og 2 forstjórar 12000,00

Skipstj. á milliferðaskipum ..... 12000,00

og vjelstjórar og stýrimenn hafa hærri laun en embættismenn ríkisins mega yfirleitt komast, að einum eða tveim undanteknum. — Að maður minnist nú ekki á Landsbankann:

Bankastjórar fá alt að . . . . 24000,00

Bankaeftirlitsmaður ……. 10000,00

(að viðbættri dýrtíðaruppbót)

og borgarstj. hefir í laun. . . 16800,00

Þetta eru sláandi dæmi. Hjer eru launin miðuð við þá dýrtíð, sem við verðum að horfast í augu við. Það er svo fjarri því, að það sje ósanngjarnt að fara fram á 51% dýrtíðaruppbót, því að ef ætti að reikna hana út eftir reikningi hagstofunnar, ætti að bæta upp launin með 93%, en ekki 51%. Það er farið fram á helmingi minni uppbót en starfsmenn ríkisins eiga heimtingu á, og þó er því haldið fram, að þeir spyrni á móti því að dýrtíðin lækki.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að starfsmenn ríkisins væru altaf síkvartandi. Þeir hafa alls ekki kvartað undan launal. frá 1919, þótt það sje langt frá, að þau hafi bætt þann halla, sem þeir hafa beðið af völdum dýrtíðarinnar. Þeir voru miklu fremur þakklátir, að þingið var þá að bæta þeirra kjör, en síðan hefir hvert þing gengið á rjett þeirra, sem launalögin frá 1919 ætluðust til. Mjer finst ekkert undarlegt, þótt sá maður, sem ekki fær uppfyltar rjettmætar kröfur sínar, kvarti. Það væri blátt áfram ómenskuháttur að gera það ekki.

Annars skal jeg ekki segja, hvað hv. d. gerir við þessa till. Sumum finst hún ef til vill of há, öðrum of lág, og geta þeir þá kannske sameinast um að vera allir á móti till.

Fyrir mjer er það aðalatriðið, að stj. skipi nefnd til þess að taka launamálið til athugunar á milli þinga, og væri áreiðanlega besta lausn þess, ef það yrði gert og starfsmenn ríkisins ættu fulltrúa í þeirri nefnd.