06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (3618)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Einar Jónsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg er ef til vill mörgum síður fær til að tala um lögfræðileg atriði, eins og að ræða um launakjör embættis- og starfsmanna ríkisins. En þegar talað er um að bæta launakjör þeirra, þá kemur mjer í hug annað stórmál, sem hjer var á döfinni í marga daga í vetur, þegar fullyrt var, að laun háseta á togurum okkar væru ekki nógu há, og tók það marga daga að þræta um þetta og ræða það fram og aftur, en borið saman við embættismenn ríkisins þótti það óhæfa, að togaramenn fengju ekki stórhækkun á launum sínum. En mig minnir, að það kæmi á sama tíma frá hv. 1. þm. Reykv. frv. til laga um dýrtíðaruppbót á launum embættis- og starfsmanna ríkisins, þskj. 58, sem gekk í þá átt, að greiða fulla dýrtíðaruppbót á öll laun, jafnt þau hæstu sem lægstu. Nú finst mjer það, sem hjer er á ferðinni, vera sanngjarnast af okkur að gera, að láta þá dýrtíðaruppbót halda sjer, sem áður hefir verið. En ef nú hv. d. sýnist ekki að fara þessa leið, þá eru það jafnaðarmenn þessarar d., sem hafa komið því til leiðar, þar sem þeir fóru fram á það að hækka laun þeirra manna, sem best eru launaðir, nefnil. háseta á togurum. Svo framarlega sem hv. d. álítur sjer það sæma að taka þá till., sem hjer er á dagskrá, til greina, sem er á þskj. 30, þá er jeg viss um, að ekki er hægt að fara gætilegar í sakirnar en að samþ. hana. En ef mönnum, sem eru hjer að berjast fyrir hag sjerstakrar stjettar, þykir þetta hart í sakirnar farið, þá eiga þeir sjálfir sökina á því, vegna þess að þeir hafa farið harðara af stað og ósanngjarnara á öðru sviði fyrir menn, sem eru betur settir við að sætta sig við ákveðin laun heldur en margir aðrir, sem ekkert hafa á að byggja, hvort sem það eru verkamenn, bændur eða aðrir fátækir menn úti um land. Tek jeg alveg undir þær raddir, sem áður hafa komið fram hjer í hv. d. um það, að embættismenn eru illa settir, margir hverjir, þótt ekki sje lækkuð sú dýrtíðaruppbót, sem ákveðin var á launum þeirra á þingi 1919. Jeg minnist þess, þegar jeg átti sæti á þinginu 1919, þegar dýrtíðaruppbótin var ákveðin, að þá var álitið sanngjarnt að ákveða hana eftir vísitölu þeirri, sem hagstofan hafði reiknað út, og það álít jeg enn; en hvort það hefir farið þannig á síðasta ári, að dýrtíðaruppbótin væri svo lækkuð, sem gert var ráð fyrir, skal jeg ekki um segja, en hitt tel jeg, að þetta sje rjett að samþ.

Jeg tek það fram, að jeg geri þetta ekki fyrir mig, því að mjer er alveg sama um þá breyt., sem á verður, fyrir mitt leyti, en jeg veit, að það eru ýmsir fátækir barnamenn og bláfátækir starfsmenn í þjónustu hins opinbera, sem ekki veitti af því, að þessi sanngjarna leið væri farin.

Þá vil jeg drepa á þær tvær leiðir, sem áður hafa verið farnar hjer, og er þá fyrst sú skammarlega þræta, sem vakin hefir verið af jafnaðarmönnum um kaup manna á togurum, en hitt er sú ósanngjarna leið, sem hv. 1. þm. Reykv. fór, þegar hann kom með sitt frv. um dýrtíðaruppbót á launum embættis- og starfsmanna ríkisins, að láta dýrtíðaruppbótina haldast jafna á hæstu sem á lægstu launum. Þeirri stefnu mun jeg ekki fylgja, en þessari till. til þál., sem hjer liggur fyrir, treysti jeg mjer til að fylgja, en meira ekki. Jeg þori ekki annað en að taka það fram, svo að jafnaðarmenn hjer heyri, að ef þessi leið verður ekki farin, þá er það þeirra sök, — því hverjir hófu umr. um frv. um dóm í vinnudeilum með öðru eins offorsi og frekju eins og þeir? En nú er alt í þögn, og sýnir þetta best, að þeir eiga ekki að vera í neinu samfjelagi við aðra þm., sem um málin hugsa, heldur væri rjettast að flytja þá til Rússlands alla saman.