06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (3619)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Halldór Stefánsson:

Það er fyrst og fremst út af fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. um frv. hans, sem vísað var til fjhn., að jeg vil sem form. n. gefa hv. þm. nokkra skýringu, þótt hv. þm. hafi að vísu nú þegar fengið þau svör frá öðrum nefndarmönnum, sem hann máske gæti látið sjer nægja.

Nokkurnveginn jafnframt og frv. hv. þm. kom til fjhn., og þó öllu fyr, var þessi till. til þál., sem hjer er til umr., borin fram í hv. Ed. Lágu þá fyrir þinginu samtímis tvær till., sem snerta mjög svo það sama efni. Nefndarmenn beggja deilda áttu svo með sjer einn umræðufund um þetta, og var það álit nm., að óskipulegt væri að afgreiða mál um sama efni sitt í hvorri deild og rjettara væri, að annað væri látið liggja hjá þeirri n., sem það var til komið, ef hitt væri borið fram. Það var svo nokkur bið um þetta í n. Nd., án þess að hún frjetti nokkuð frá n. í Ed., en drátturinn á málinu var eingöngu vegna þess, að verið var að bíða eftir því, hvað Ed.- nefndin gerði. Hinsvegar var það líka í n. í Nd., að nm. voru ekki einráðnir í að mæla með frv., líklega enginn þeirra. Jeg skal þó ekki alveg taka fyrir um afstöðu hv. 2.þm. G.-K.; hefir hann minst á það sjálfur við umr., en hinsvegar kom það fram á þessum sameiginlega fundi, að allmargir af nm. beggja d. gáfu það í skyn, að þeir myndu geta fallist á að fylgja till.; svo kom hún frá hv. Ed.-n. og var þá ekki hugsað um að afgreiða málið frá n. í Nd. eftir það.

Úr því að jeg stóð upp á annað borð, vil jeg leyfa mjer að víkja stuttlega að þeim ástæðum, sem færðar eru með þessari till. og launamálinu alment. Aðalástæðan og sú ástæðan, sem mestu máli skiftir og mest ber að taka tillit til, er það, hvort launin sjeu of lág, og er altítt að láta falla ákveðin orð um það, að launin sjeu alt of lág, enda hefir það líka verið gert við þessa umr. En þetta fer nokkuð eftir því, við hvað er miðað. Ef miðað er við hæstu laun, eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði hjer, má vitanlega segja, að þau sjeu lág, en ef miðað er við kjör almennings í landinu, þá held jeg, að segja megi, að launin sjeu alveg forsvaranlega há. Þegar þess er ennfremur gætt, að launin verða ekki bætt nema með því að leggjast þyngra á almenning í opinberum gjöldum, þá sýnist vera mjög vafasamt, hvort hægt sje að telja launin of lág. Í þessu sambandi mætti vel spyrja um það, þrátt fyrir þennan sífelda söng um það, að launin sjeu of lág, hvers vegna altaf er þá sótt um stöður hjá ríkinu; það sýnist ekki vera sjerlega gott samræmi milli þessara ummæla um alt of lág laun og reynslunnar.

Jeg skal þá minnast á einstök atriði, sem fram komu í ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hv. þm. sagði, að starfsmenn ríkisins væru þeir einu, sem ekki hefðu fengið bætur. Þetta er alls ekki rjett. Starfsmenn ríkisins fengu fyrstir manna dýrtíðarbætur, sem sje dýrtíðaruppbótina svokölluðu, en slíka dýrtíðaruppbót hafa aðrir starfsmenn, t. d. verkamenn, smám saman fengið eftir á í hækkandi kaupi. Starfsmenn ríkisins fengu hæstar bætur, þegar dýrtíðin var mest, en almennir verkamenn hafa smám saman fengið hærri og hærri bætur, eftir því sem launin hafa smáhækkað, og nú hafa starfsmenn ríkisins ekki svo litlar bætur, 34% eru enganveginn svo litlar bætur, og það eru einmitt þær sanngjörnustu bætur, sem hægt er að ákveða, af því að þær eru miðaðar við dýrtíðina sjálfa og hreyfast eftir því, hvernig dýrtíðin breytist.

Þá sagði hv. þm., að dýrtíðaruppbótin væri þriðjungi lægri en þingið hefði ætlast til. Þetta er heldur ekki rjett. Dýrtíðarbæturnar eru nákvæmlega það, sem þingið ætlast til, — eða vill hv. þm. halda því fram, að bæturnar sjeu ekki greiddar eftir þeim lögum, sem um það voru sett? Nei, þessi till. fer fram á hærri bætur en lög ákveða, og þá kemur maður að því atriði, hvort hún geti staðist.

Jeg skal nú játa það, að jeg er ekki svo vel að mjer, að jeg geti neitt fullyrt um það atriði, en mjer þykir það dálítið undarlegt, ef hægt er að breyta lögum með þáltill. Vil jeg sjerstaklega skjóta þessu fram til athugunar fyrir hv. d. og hæstv. ríkisstj.