06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3620)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Magnús Jónsson *):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg skal ekki lengi tefja umr. um þetta mál; það þýðir hvort sem er ekki að fara að ræða launamálið alment.

Hv. þm. V.-Húnv. var að tala um það, að laun þau, sem þingið hefir ákveðið á síðari árum, muni hafa verið ákveðin svo há, til þess að síður væri hægt fyrir embættismenn að vitna í þau og gera kröfur um hærri laun. Mjer skildist hv. þm. vera með þessu að bregða starfsmönnum ríkisins um lævísi gagnvart þingi og stj. Það þarf ekki að vera að hafa fyrir því að hrekja þetta, því að það eru yfirleitt ekki starfsmenn ríkisins, sem ákveða laun sín; þeir eiga ekki svo margir sæti hjer. Nei, það er eingöngu nauðsynin, sem hefir knúð þá til þess að bera fram þessa kröfu. Ef á að fá hæfa menn til þess að gegna störfunum, þá verður að borga þeim betur en nú er gert.

Jeg gerði það hjer fyr á þinginu, um það bil þegar verið var að undirbúa þetta mál, að jeg fór til ýmsra, sem jeg þekki vel hjer við einkastofnanir, til þess að fá að vita um, hver. „markaðurinn“ væri, ef svo mætti segja, og jeg komst að því, að það eru margir, sem ekki bjóða minna en ríkið, ef á að fá menn til einhverra ábyrgðarmikilla starfa. Jeg fjekk alstaðar greið svör, nema hjá Sambandi ísl. samvinnufjelaga; þar var svo mikill leyndardómur yfir, að þeir gátu engar upplýsingar gefið. Gat jeg því ekkert fengið að vita þar, en allir aðrir voru fúsir að gefa mjer upplýsingar, gegn því að nafngreina enga. — Nei, þessi laun hafa alls ekki verið miðuð við það að geta síðar vitnað til þeirra, því að þeim hefir alls ekki dottið í hug að komast svo hátt.

Þá sagði hv. þm., að jeg ljeti mjer nægja sex stig, þótt jeg hefði áður farið fram á miklu meira. Nei, jeg læt mjer alls ekki nægja með þetta, jeg hefi ekkert um það sagt, að jeg væri ánægður með það, og jeg hefði næstum því freistingu til að segja, að jeg kærði mig ekkert um þetta, en ef jeg segði nokkuð, þá væri það, að þessir aurar gætu verið til þess, að einhverjir starfsmenn gætu fengið sjer fáeinar flíkur fyrir þá.

Eftir mínum till. nam útgjaldaaukinn hátt á 3. hundr. þús. kr. Það er altaf álitamál, hvað ríkið megi við að borga. Hverjum hefði dottið í hug fyrir fáum árum, að fjárlögin ættu eftir að komast upp í 11 milj. kr.? Og svo er annað. Hvað fær ríkið fyrir það, sem það borgar út? Með því að borga illa fær það litla vinnu og illa. En það má borga stórar upphæðir fyrir stóra hagsmuni, og ekkert fyrir enga vinnu.

Því fer fjarri, að launin haldi uppi verðlaginu í landinu. Þau eru yfirleitt langt undir vísitölu. En það, að ríkissjóður borgar stærri upphæð til launa nú en áður, stafar af því, að margvísleg ný störf hafa verið stofnuð.

Jeg skal ekki fara út í hina gömlu röksemd hv. 1. þm. N.-M. Hann var að tala um, við hvað ætti að miða. Vitaskuld má miða við það, að embættismaður, sem þarf 12–14 ára undirbúning, þurfi ekki meiri laun en verkamaður. En það má líka miða t. d. við embættislaun með Dönum. Þar komast hæstu embættismennirnir upp í 20 þús. ísl. kr. Fyrir ábyrgðarmikil störf eru borgaðar þetta 14–20 þús. ísl. kr. Þar hefir það ekki komist á, eins og hjer, að borga lítið fyrir að vinna ábyrgðarmikil andleg störf. Eru störf bankastjóra það ábyrgðarmeiri en allra annara starfsmanna, sem launamuninum svarar? Jeg sje það af þeim bankalögum, sem samþ. voru í dag, að ekki er slegið stóru af launum bankastjóra. Og þó er sagt, að erfiðleikar sjeu á að fá menn í þau embætti, af því þeir hafi betri kjör annarsstaðar. Það getur verið, að ríkinu haldist það nokkuð uppi að borga lakar en aðrir. En það fer að líða að þeim tíma, að það fái ekki aðra menn í þjónustu sína en úrhrak. Það fær altaf nógu marga, en þegar menn sjá, að hvergi eru verri kjör en hjá ríkinu, þá leita menn annað, dugnaðarmennirnir komast að, en eftir verður úrhrak.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að starfsmenn ríkisins hefðu manna fyrstir fengið launabætur. Þetta er alveg rangt. Þegar launalögin 1919 voru sett, var það gert undir pressu embættismanna. Þá gátu þeir sýnt fram á, að búðarlokur hefðu betri kjör en embættismenn. Þá komust þeir í flokk með öðrum, en síðar hafa laun þeirra lækkað, og það ávalt meira en dýrtíðin.

Jeg skal svo ekki vera að elta ólar við þetta meira. Jeg vona, að menn sjeu búnir að gera upp huga sinn og tel frekari umr. þýðingarlitlar.