01.03.1929
Neðri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3640)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Fyrst hv. flm. lagði ekki beinlínis til, að þessari till. yrði vísað til landbn., þá vil jeg hjer með. gera það að till. minni.

Jeg skal geta þess, að ríkisstj. hefir lögum samkv. heimild til að leyfa innflutning lifandi dýra. En ástæðan til þess að þessi till. er komin fram, mun vera sú, að jeg hefi ávalt í minni stjórnartíð synjað um slík leyfi, ef um spendýr hefir verið að ræða, og jeg mun heldur eigi framvegis taka á mig þá ábyrgð, að leyfa innflutning á lifandi spendýri. Jeg tel brýna nauðsyn bera til þess, að hv. d. athugi nú vel í sambandi við þá löggjöf, sem hjer var gerð í fyrra, hve langt megi ganga í þessum efnum án þess að stofna landinu í voða. Það mun ávalt verða svo, að mest hættan stafar af lifandi dýrum, þó að jeg hinsvegar viðurkenni, að minni hætta stafi af þessum dýrum, sem hjer er um að ræða, en ýmsum öðrum.

Jafnvel þó að þessi till. yrði samþ., er nauðsyn til að taka fram, frá hvaða löndum þau dýr megi vera, sem leyfður yrði innflutningur á; en um það er ekkert tekið fram í till.

Hv. flm. taldi það draga úr smitunarhættunni, að þessi dýr yrðu geymd í girðingum; en í því er engin trygging, því að girðingarnar geta ávalt bilað. Það verður að vera trygt, að ekki stafi smitunarhætta af dýrunum, þegar þau koma hjer í land, því að þaðan í frá er engu eftirliti að treysta; verður því að leggja megináherslu á það, að dýrin sjeu eigi flutt inn frá þeim löndum, þar sem veikindahætta er.