01.03.1929
Neðri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (3642)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Pjetur Ottesen:

Það er, býst jeg við, ekki að ástæðulausu, þó að menn tali um varfærni í sambandi við þetta frv., sem hjer er um að ræða. Það er þó ein undantekning, skilst mjer, frá þessu, og það er um sauðnautin, og það þó því aðeins, að þau sjeu flutt frá Grænlandi eða svæðinu norðan við Scoresbysund, eða við Franz-Joseps-fjörðinn. Jeg hygg, að um sauðnaut, sem flutt yrðu þaðan, sje það örugt, að frá þeim stafaði engin sjúkdómshætta. En hvað hin dýrin snertir, þá býst jeg við, að þar geti verið töluvert öðru máli að gegna, og sjerstaklega þar sem jeg býst við, að innflutningur verði frá löndum, þar sem gin- og klaufaveiki hefir verið, og er þá sennilega enn, þó hún kunni að liggja niðri í bili.

Eins og menn sjálfsagt muna, hafa hjer tvívegis komið fram till. um það, að veita nokkurt fje til þess að flytja inn sauðnaut. Það var myndað fjelag hjer af nokkrum áhugasömum mönnum, sem vildu fara til Grænlands og afla þar sauðnauta. Þeir leituðu styrks hjá þinginu, og var samþ. hjer í Nd. á þinginu 1927 að veita 20 þús. kr. í þessu augnamiði. Málið fór svo til hv. Ed., sem feldi styrkveitinguna alveg niður, og var þess ekki kostur að taka hana upp aftur, því að það hefir verið svo tvö síðustu. þing, að Nd. hefir fengið Ed. fult alræðisvald í hendur til þess að afgreiða fjárlögin. Það hefir nú komið til tals í fjvn. Nd. að taka upp slíka fjárveitingu, og ef svo verður, þá er vitanlega alveg sjálfsagt að leyfa innflutning á þessum dýrum, enda ekkert að óttast, ef þau eru flutt inn frá Grænlandi.

Jeg vil þess vegna taka undir með þeim deildarmönnum, sem jeg býst við, að verði nokkuð margir, að gagnvart hinum dýrunum verður allan vara að hafa, og ekki get jeg tekið undir ummæli hv. flm., að örugt sje að byggja á umsögn fagmanna, ef dæma skal eftir framkomu þess manns, sem nú er dýralæknir hjer í Reykjavík, í gin- og klaufaveikismálinu á síðasta þingi.

Eins og menn rekur sjálfsagt minni til, reit hann bækling í fyrravetur um það mál, og gat þar um nokkrar vörutegundir, sem hætta væri á að flytja til landsins. Hitt er deildarmönnum jafnkunnugt, að afgreiðsla frv. um varnir gegn því, að gin- og klaufaveikin bærist til landsins, var þannig, að feldar voru úr frv. nokkrar af þeim vörutegundum, sem dýralæknirinn fullyrti um í þessari ritgerð sinni, að væru hættulegar. Þetta var þó ekki af því, að sú skoðun væri ekki ríkjandi hjá meiri hl. þm., að banna ætti innflutning á þessum vörum, heldur af hinu, að það var orðið svo naumt fyrir með afgreiðslu málsins, að ekki þótti fært að taka ákvæði um þetta upp í frv. aftur í Nd. og láta það fara þannig til Ed. aftur. En til þess að láta vilja Nd. og meiri hl. þingsins koma skýrt og skorinort fram, var samþ. hjer þáltill. um það, að láta haldast áfram innflutningsbann á þessum vörutegundum, þ. e. smjöri, eggjum og osti. Var þetta, eins og jeg nú hefi lýst, bygt á rökstuddum ummælum dýralæknis, sem lágu hjer fyrir deildinni. En hvað skeður svo? Stj. nemur strax að þingi loknu þessi ákvæði úr gildi, og jeg hefi heyrt fullyrt, að það hafi verið gert með samþykki dýralæknis, og fyrst svo er, þá lít jeg svo á, að ekki sje eins mikið öryggi fólgið í ummælum þess manns eins og fram kom hjá hv. flm. Jeg held því, að fullkomin ástæða sje til að vísa þessu máli til nefndar, og á sú nefnd og þingið alt að hafa fullkomna varfærni í þessu efni, því að þótt það geti orðið til einhverra hagsbóta að ala hjer upp þessa silfurrefi eða blárefi, og svo þessar kanínur, sem hv. flm. hafði svo mörg sjerfræðinöfn um, sem jeg ekki kann eftir að hafa, þá held jeg, að slík rækt verði aldrei neinn höfuðatvinnuvegur. En hinsvegar getur öðrum aðalatvinnuvegi landsmanna stafað mikil hætta af þessum innflutningi, ef illa tekst til.