01.03.1929
Neðri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (3643)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Jón Ólafsson:

Hæstv. forsrh. gat þess áðan, að ekki hefði verið leyft að flytja inn spendýr, og það af þeim ástæðum, að hætta gæti stafað af þeim um smitun á gin- og klaufaveiki. Jeg hefi orðið þess var víða um land, að með þessari ítrekuðu varfærni þykir of langt gengið. Hafa fleirum sinnum komið fram raddir um það, að gott væri að fá ýmsar skepnur til kynbóta utanlands frá, t. d. sauðfje, en það er eins og allur fjöldinn hjer líti svo á, að það sje ekkert annað að gera en að stympast gegn öllu, sem á að gera í þessum efnum, án þess að hafa nokkrar tryggingar í framkvæmdum. Mjer finst, þegar um það er að ræða að skapa landsmönnum nýja tekjulind, þá verður fyrst í stað að athuga það með tilliti til þess, hvort ekki sje hœgt að gera það án þess að öðru sje stofnað í voða; t. d. það, sem hjer er um að ræða í þáltill., þar er þess að gæta, að við eigum nógar eyjar og annes, þar sem hægt er að einangra þessar skepnur um lengri tíma, því að það hljóta að vera einhver tímatakmörk fyrir því, hve lengi þarf að einangra til þess að fyrirbyggja smitun. Þetta verður að athuga grandgæfilega, og jeg skil ekki annað en að hægt sje að finna einhverja heppilega úrlausn, aðra en þá að gera sig tryggan með því að gera ekki neitt. Það er auk þess ómótmælanlegt, að það er of mikil varfærni, sem drepur fjölda af framkvæmdum landsmanna, þannig að hitt og þetta má ekki gera, af því að það þykir, einhverra hluta vegna, ekki, trygt, en hitt er ekki athugað, hve mikið gott landsmenn geta haft af því, ef alt er tekið með, til þess að tryggja atvinnulífið.

Jeg hefi ofurlítið kynt mjer um silfurrefarækt; mjer finst, að það atriði geti verið svo mikils varðandi um framtíð landsmanna, ekki síst landbúnaðarins, að hjer verði umfram alt að athuga allar leiðir til að koma slíkri atvinnugrein á. Jeg vildi því vænta þess, að hv. n. athugaði þetta sjerstaklega vandlega og ljeti ekki varfærnina eina og hræðsluna ráða fyrir þessu máli, eða ráða fyrir góðri athugun á því.