08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3647)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Gunnar Sigurðsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg get verið hv. landbn. þakklátur fyrir afgreiðslu þessa máls, því þó það kæmi að vísu nokkuð seint frá henni, þá hefir hún borið fram 2 frv., er byggjast á þessari till. Er það frv. um refarækt og moskusnaut.

Jeg tók það fram við fyrri hluta þessarar umr., að rjett mundi að leyfa innflutning sauðnautanna vegna þess hagnaðar, sem af því mætti hafa. En svo taldi jeg líka rjett að gera tilraun með silfurrefi, því jeg hygg, að það megi vel takast að gera þá arðvænlega hjer. T. d. hygg jeg, að loftslagið sje heldur heppilegt fyrir þá. Þegar jeg sagði þetta, þá var mjer að mestu ókunnugt um það, hvort menn hefðu yfirleitt áhuga á þessu, en síðan hafa mjer borist brjef frá ýmsum mönnum, er hafa lýst áhuga sínum á þessu og telja, að flytja megi inn, ekki aðeins silfurrefi, heldur og svarta refi. Hafa þeir mjög verðmætt skinn, en hafa hinsvegar þann kost, að þeir eru mjög ljettir á fóðrum. Annars þekki jeg lítið til þeirra.

Því verður að vísu ekki neitað, að töluverður vandi er að fást við refarækt, og má því búast við, að það verði einungis í smáum stíl fyrst í stað. Í Noregi var það svo fyrst er þeir byrjuðu á innflutningi þessara dýra, að sum búin töpuðu, en önnur græddu. Vitanlega þarf að hafa gott eftirlit með þessum búum, og er nauðsynlegt, að stj. semji reglugerð um þau og hafi fult eftirlit með því, ef refir verða fluttir inn. Jeg mun sætta mig við það, þó hv. landbn. hafi felt niður loðkanínurnar úr till. minni. Að vísu veit jeg til þess, að þessi loðkanínurækt hefir borið sig vel erlendis, en að öðru leyti skal jeg ekki fást um það.

Rjett þykir mjer að geta þess, að mjer hefir skrifað maður vestur í Ameríku og boðist til þess að flytja inn moskusrottur. Jeg álít, að fullkomlega sje hægt að hafa eftirlit með því undir stjórn dýralæknanna og landsstj., að þetta verði engum til skaða. En hinsvegar ætti það að geta orðið til mikils hagnaðar. Jeg vil ekki vera að tefja umr. meira. Aðeins vil jeg endurtaka þakklæti mitt til hv. landbn.