08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (3649)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Jón Auðunn Jónsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg vil skora á hæstv. stj. að beita þeirri heimild, sem hún fær til að leyfa innflutning á refum, með varúð. Jeg hygg, að slíkt leyfi geti orðið til stórskaða, ef ekki væri sjeð svo fyrir, að valin væru góð undaneldisdýr. — Það hefir orðið sú reynsla í Noregi, að valið hefir ekki reynst nógu vandvirknislega gert. Þau dýr, sem þeir fluttu fyrst inn og áttu að vera 1. flokks dýr, reyndust það ekki. Þeir, sem fluttu inn, sluppu að vísu vegna þess, að þeir gátu selt viðkomuna til annara, sem svo stórtöpuðu á sínum kaupum, af því dýrin reyndust ekki 1. flokks vara. Þar sem náðst hefir í stofn af bestu tegund, hefir þetta verið mjög arðvænlegur atvinnuvegur. Svo hefir það t. d. reynst í Canada og víðar, sem jeg hefi spurnir af. Jeg er viss um, að 1 par af góðum stofni, enda þótt það kosti 40–60 þús. kr., gæti gefið góðan hagnað. En ódýrt par, sem kostar kannske 4–16 þús. kr., gæti orðið til stórtjóns sem stofn. Jeg vil því alvarlega skora á ríkisstj. að gæta þess, ef hún leyfir innflutning á silfurrefum, að inn sjeu aðeins flutt dýr af bestu tegund.