08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3651)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Halldór Stefánsson:

Jeg hefi sýnt fram á það, að ef þáltill. þessi, eins og hv. landbn. vill láta hana ganga fram, verður samþ., þá er ekkert í henni eftir, sem máli skiftir, nema refirnir. Hv. landbn. leggur til, að loðkanínurnar sjeu feldar úr till. Og fyrir innflutningi sauðnauta verður sjeð á annan hátt. Þá standa bara refirnir eftir. (GunnS: Það er líka aðalatriðið). Og þar sem þessu er haldið fast fram í nál. og grg., að hjer sje um stórgróðafyrirtæki að ræða — og fært sem aðalástæða fyrir till. —, en er nú dregið mjög í efa að svo sje, og það af flm. sjálfum, en er auk þess ekki hættulaust um sjúkdómahættu og það að dýrin geti sloppið, þá held jeg, að það sje lítil ástæða til að skora á stj. að leyfa þennan innflutning, sem auk þess er heimilaður, og er því óþarft til viðbótar þeirri heimild, sem stj. hefir áður til að gefa þessi leyfi.

Hv. flm. sagði, að þeir einir mundu flytja inn refi, sem vit hefðu á að ganga svo frá girðingum, að þeir slyppu ekki. Jeg hygg nú, að enginn refaeldismaður hafi viljað sleppa refum úr gæslu, en þó hefir það komið fyrir. Það er aldrei hægt að forsvara, að slíkt geti ekki komið fyrir af vangá eða yfirsjón. Og þótt hv. flm. segðist „nærri“ treysta sjer til þess að fullyrða, að þessir silfurrefir gætu ekki lifað viltir, þá er sáralítil trygging í því. Þá áleit hann, að þessir refir gætu ekki lifað hjer viltir, en þorði þó ekki að fullyrða það. Þessir refir lifa norðarlega á hnettinum, og er því engin ástæða til að ætla það, að þeir geti ekki lifað hjer viltir.