08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

44. mál, innflutningur á lifandi dýrum

Frsm. (Lárus Helgason):

Hv. 1. þm. N.-M. áleit ekki hættulaust að leyfa innflutning á þessum umræddu dýrum, vegna þess að refirnir gætu sloppið. Jeg veit ekki betur en að nú sjeu þegar starfrækt nokkur refabú, og þá er alveg sama hætta með þau, hvort sem inn er flutt eða ekki. Þar sem refir þeir, sem inn verða fluttir, eru afardýrir, þá munu menn kynna sjer svo vel, hvernig þeir verða geymdir örugglega, svo þeir sleppi ekki, enda er þegar fengin fullkomin reynsla fyrir því, að hjer tekst vel að geyma refi í girðingum, því það væri vitanlega eigendunum stórtjón að tapa þessum dýrum.

Mjer finst ástæðulaust að standa í vegi fyrir þessari atvinnugrein, sem hefir reynst öðrum þjóðum stórkostlega arðvænleg. Í Noregi var það að vísu misbrestasamt í byrjun, en nú eru þeir að ná sjer betur á strik og eru farnir að reka þetta með góðum hagnaði síðustu árin. Það er full ástæða til að ætla, að þetta geti líka orðið til hagnaðar hjer á landi. Og jeg tel enga þörf á svo mikilli varfærni, að leyfa ekki stj. að gefa framtakssömum mönnum kost á að gera tilraunir með þetta.