08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3659)

93. mál, útrýming fjárkláða

Pjetur Ottesen:

Það má með sanni segja, að á undanförnum þingum hefir ríkt of mikið tómlæti í því að taka til greina skynsamlegar bendingar um að halda niðri fjárkláðanum í landinu á kostnaðarlítinn hátt. Eins og hv. frsm. tók fram, hafa í þessu máli ríkt tvær stefnur á undanförnum þingum. önnur er sú, að stofna til útrýmingarbaðana um land alt. Var sú leið farin fyrir allmörgum árum, þegar norskur dýralæknir var fenginn hingað til þess að standa fyrir böðununum. Hin leiðin er sú, að tryggja betur en nú er gert með lögum um sauðfjárböðun, að strangara eftirlit sje haft með hinum árlegu þrifaböðunum, og er ýmislegt, sem bendir í þá átt, að með tryggara eftirliti en nú er mætti ná betri árangri í að halda kláðanum niðri í landinu, og jafnvel takast að útrýma honum með öllu. Á þinginu 1927 kom fram till. í þessa átt, en hún náði ekki fram að ganga og varð ekkert úr framkvæmdum. Og á síðasta þingi var tómlætið svo mikið í þessu máli, að till. í þessa átt dagaði uppi í n. Það er því ekki að ástæðulausu, þó að Búnaðarþingið vildi rumska við þinginu í þessu efni.

Mjer skilst, að fyrir þeirri n., sem um þetta mál fjallaði á Búnaðarþinginu, vekti svipað hvað endanlega úrlausn málsins snertir og fyrir þeim mönnum, sem tryggja vilja eftirlitið með hinum árlegu böðunum. Byggi jeg það á því, að n. sjer sjer ekki fært að leggja til, nú í bili að minsta kosti, að ráðist sje í útrýmingarböðun um land alt. Jeg er þess sannfærður, að það má vinna mikið gagn með því að setja strangara eftirlit með hinum árlegu þrifaböðunum, þó að ekki sje annað gert. Hinsvegar skilst mjer, að með þessari till. sje öllum framkvæmdum til endurbóta í þessu efni slegið á frest í 3–4 ár, því að till. gerir ekki ráð fyrir öðru en að þetta mál verði rannsakað og niðurstaða þeirrar rannsóknar síðan lögð fyrir þingið 1931. Það á því með öðrum orðum ekkert að gera í ár, ekkert 1930, og þótt þingið kunni eitthvað að gera í málinu 1931, verður ekkert um framkvæmdir á því ári. Jeg held, að þetta sje öfug aðferð og að rjett sje, eins og hv. þm. Barð. lagði til á þingunum 1927 og 1928, að reyna, hvað hægt verði að vinna á með því að skerpa eftirlitið með þrifaböðunum.

Þá gerir þessi till. ráð fyrir, að stj. verði falið að gera tilraunir með baðlyfin. Þetta er ekki nýtt. Fyrir nokkrum árum var samþ. hjer till. þess efnis, að baðlyfin skyldu rannsökuð af fræðimönnum. Þetta var gert, og nú átti svo sem að vera fengin lausn á því, hvaða baðlyf væri einhlítt. En hver varð reynslan? Hún varð sú, að þetta baðlyf reyndist að dómi fjölda manna ver en þau baðlyf, sem áður höfðu verið notuð, og niðurstaðan varð sú, að þingið varð, vegna eindreginna tilmæla þeirra, er í hlut áttu, að gefa baðlyfjaverslunina alveg frjálsa aftur. Þetta baðlyf, sem hjer var um að ræða, þoldi ekki að frjósa og settist til, ef ekki var að gætt, svo að efnasamsetning þess raskaðist. Það var því ekki hægt að treysta neitt á það. Jeg segi það ekki, að þótt svo hafi farið um þessa tilraun, þurfi endilega að fara svo nú, en það er varhugavert að treysta því, að komist verði að óyggjandi niðurstöðu á þennan hátt.

Þá gerir þessi till. ráð. fyrir því, að stj. hlutist til um, að sundþrær verði bygðar í hverjum hreppi. Hv. frsm. fór ekkert út í það, í hverju þessi íhlutun stj. á að vera fólgin. (BSt: Jeg mintist á það). Já, hv. frsm. var eitthvað að tala um það, að styrk mundi ekki þurfa að veita í þessu skyni, en jeg er hræddur um, að þessi íhlutun muni bera lítinn árangur, ef svo á að vera. Jeg býst við því, að ef nauðsyn og yfirburðir sundþrónna við böðun getur ekki sannfært menn í þessu efni, muni opinber íhlutun lítið gagn gera. Annars held jeg, að sundþrær sjeu nú svo víða komnar, að varla muni nokkur hreppur, svo að þar sjeu ekki fleiri eða færri sundþrær. Að minsta kosti er svo í Borgarfirði, en vel má þó vera, að sumum sýslum sje áfátt í þessu efni.

Loks gerir þessi till. ráð fyrir, að skýrslum sje safnað um útbreiðslu kláðans. Jeg veit nú ekki betur en að skýrslum sje safnað um þetta efni í flestum sýslum. Í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum fara t. d. fram árlega kláðaskoðanir í hverjum hreppi og eru skýrslur um þær sendar til sýslunefndarinnar.

Það, sem jeg hefi á móti þessari till. er það, að ef hún verður samþ., er öllum framkvæmdum í þessu efni slegið á frest að minsta kosti í 3 ár. En slíkt tel jeg ekki rjett. Jeg held, að það fyrsta, sem við eigum að gera í þessu máli, sje að skerpa eftirlitið með þrifaböðunum og sjá, hvað hægt verður að vinna á með því móti.