08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3661)

93. mál, útrýming fjárkláða

Pjetur Ottesen:

Að áliti dómbærra manna, þá eru sum þau baðlyf, sem nú eru notuð, öldungis örugg. Það getur því ekki verið ástæðan fyrir þessari till., að ekki sjeu fáanleg baðlyf, sem trygg sjeu. Oft er það líka svo, að það er ekki síður hægt að byggja á umsögn greindra og athugulla manna, sem langa reynslu hafa í þessu efni, heldur en lærðra fagmanna. Það hefir reynslan sýnt fullkomlega.

Hvað hinu viðvíkur, að það nægi til að bæta úr því, sem áfátt kann að vera um sundþrær, að stj. leggi fyrir sveitarstjórnir að láta koma þeim upp, þá er því til að svara, að stj. getur ekki lagt þetta fyrir sveitarstjórnirnar, því hún hefir ekkert skipunarvald um slíkt. Hún verður að fara að þeim bónarveg, og jeg legg ekki mikið upp úr því.

Hv. frsm. hjelt því fram, að ekki væri útilokað, þó þessi till. væri samþ., að herða jafnframt á eftirlitinu með hinum almennu sauðfjárböðunum. Það er að vísu rjett. En hingað til hafa allmargir menn ekki viljað þekkjast till. manna í þá átt, en starblínt á þá einu úrlausn: almenna útrýmingarböðun. Og því mun verða haldið fram, verði málið afgr. svona, að ekki sje ástæða til að gera neinar bráðabirgðabreytingar á löggjöfinni um sauðfjárbaðanir, heldur bíða eftir þeirri niðurstöðu, sem þeir komast að, er falin verður rannsókn þessa máls. Það má því ganga út frá því, að ekki verði gerðar aðrar ráðstafanir á þessu tímabili, og mun það því rjett reynast, að verði till. samþ., er þar með öllum aðgerðum í málinu slegið á frest um að minsta kosti 3 ára skeið.