08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (3674)

104. mál, fiskimat

Pjetur Ottesen:

Eftir þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. hefir gefið, verð jeg að láta ánægju mína í ljós yfir því, að þetta mál er í þeim farvegi, sem við hv. 3. þm. Reykv. bentum á 1927, þar sem yfirfiskimatsmennirnir eru nú á fundi hjer í Rvík og á ferð í markaðslöndunum. Þetta var það, sem við lögðum áherslu á. Slíkir fundir hafa áður verið haldnir og yfirmatsmönnum gefinn kostur á að ferðast til markaðslandanna, og hefir hvorttveggja borið góðan árangur.

Viðvíkjandi kostnaðarhliðinni vil jeg undirstrika þau orð hv. flm., að ekki ætti að þurfa að leiða neinn kostnað af þessari athugun, því að hjer eru til þeir aðilar, útgerðarmannafjelagið, forseti Fiskifjelagsins og yfirfiskimatsmaður í Rvík, sem að sjálfsögðu myndu leggja fram ókeypis vinnu, og svo hjelt jeg satt að segja, að til væru þeir starfskraftar í stjórnarráðinu, að unt væri að setja till. þessara aðilja í frv.-form. Þessi endurskoðun ætti því ekki að þurfa að leiða af sjer nein sjerstök útgjöld.