11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (3680)

139. mál, fátækralög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg skal straks taka það fram, að það, jeg segi, er ekki fyrir hönd hæstv. atvmrh., sem nú er veikur eins og kunnugt er, og því getur ekki nú á þessari stundu orðið tekin afstaða frá stj. hendi gagn vart þessari till. Jeg verð samt að láta í ljós mitt persónulega álit á þessu, og það er það, að mjer finst í þessari till. felast alveg sami veiki punkturinn eins og nú er í okkar fátækralöggjöf. Það er þetta umþráttaða atriði, hvort það eigi að vera undantekningarlaust eða ekki, að foreldrar eða mæður geti haldið börnum sínum hjá sjer. í till. er beinlínis sleginn sá varnagli, að skilyrðið til þess, að foreldrar eða mæður geti haft börn sín hjá sjer, sje það, að þau sjeu hæf til að ala upp börn.

En hver á að dæma um það? Er það sveitarstj. sú, sem kemur til með að ala önn fyrir fjölskyldunni?

Annars fanst mjer hv. flm. þessarar till. tala eins og það væri daglegt brauð hjer í landi, að fólk væri flutt fátækraflutningi og börn tekin frá mæðrum og foreldrum. Jeg held, að það sje ekki ákaflega mikið um þetta og að það sje ekki fjarska mikil ástæða til að fara að gera nú straks nýjar ráðstafanir til breyt. á tiltölulega alveg nýjum lögum í þessu efni. Og jeg get ekki búist við því, að það komi mikið annað fram nú heldur en það, sem ofan á varð fyrir tveimur árum í þessum málum.

Það er ekki svo að skilja, að jeg sje að mæla því bót, að börn sjeu tekin frá foreldrum sínum. En jeg þekki það vel, að mannúð gagnvart þeim, sem þurfa á hjálp að halda, er alt önnur nú en fyrir einum mannsaldri og miðar altaf í betri áttina. Og jeg held, að við getum verið sæmilega rólegir yfir ástandinu eins og það er.

Það eru tvær leiðir, að mjer skilst, til þess að koma í veg fyrir fátækraflutning. Önnur leiðin er sú, sem hv. 4. landsk. benti á, að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Oft hefir verið bent á það áður, en menn hafa ekki fallist á það. Hin leiðin er sú, sem mjög nálgast það sama, að dvalarsveit sje ætíð framfærslusveit.

Nú hefir verið á ferð hjer í þinginu frv. um að stytta sveitfestitímann. Jeg held einmitt, að það frv. sje í rjetta átt til þess að ná þessu takmarki, sem hjer er talað um. Þetta frv. held jeg sje gengið gegnum Nd., og jeg hefði viljað óska þess, að hv. flm. till. vildi ýta undir, að það kæmi fram hjer í deildinni, og því yrði þá jafnvel breytt í þá átt, að fullnægt yrði þeim kröfum, sem hv. flm. þessarar till. vill gera um fátækraframfærslu.

Þetta er aðeins mín skoðun á málinu, en má ekki skoða sem yfirlýsingu frá þeim ráðherra, sem þetta mál heyrir undir.