11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (3681)

139. mál, fátækralög

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Hv. 4. landsk. virtist vera ánœgður með, að þessi þáltill. kæmi fram, og er það ekki meira en jeg bjóst við, þar sem hans flokkur hefir þessi mál, mannúðarmálin, ofarlega á stefnuskrá sinni. Og jeg vænti mjer því sjerstaks stuðnings frá honum og hans flokki í þessu máli.

En okkur greinir nokkuð á um leiðirnar, þar sem jeg vil bæta úr því ástandi, sem er, án þess þó að raska grundvelli gildandi laga, enda fer fundarsamþykt sú, sem liggur fyrir þinginu, ekki fram á það. Jeg álít ekki stórfeldar byltingar úrlausn þessa máls, og jeg hygg, að hjer sje rjetta leiðin valin — eins og í mörgum öðrum tilfellum —, þegar stefnt er að því, að heildarlögin eða grundvöllur þeirra verði að lokum sá, sem almenningsálitið aðhyllist og telur best.

Það er bent á það af hv. 4. landsk., að till. sje ekki heppilega orðuð. Jeg skal ekki um það deila. En hún er orðuð í þeim anda og á þeim grundvelli, sem fundarsamþ. gerði ráð fyrir. Jeg hefi ekki ætlað mjer að taka að mjer það mikla mál að endurskoða fátækralögin í heild, bæði vegna þess, að til þess brestur mig kunnáttu, og svo af hinu, að það er ekki langt síðan þau lágu fyrir þinginu og voru afgr. með umbótum. En þrátt fyrir þessa endurskoðun eru enn nokkrir agnúar augljósir á lögunum, og þessir, sem hjer um ræðir í 36.–37. gr., eru meðal þeirra. Hvort hægt er að laga þá með breyttu orðalagi, skal jeg ekki um segja að svo stöddu, en sje það, sem þáltill. fer fram á, tekið upp í lögin, er ráðin bót á þessum agnúum án stórfeldrar breyt. á lögunum.

Jeg get ekki aðhylst þá tilhögun, að alt landið verði eitt framfærsluhjerað. Ekki heldur það, sem felst í till. þeim, sem nú liggja fyrir þinginu, að dvalarsveit verði framfærslusveit. Þá býst jeg við, að víða mundu heyrast hljóð úr horni um þungar álögur til fátækraframfæris. Það, sem hjer er farið fram á, er ekkert annað eða meira en það, að skýrt sje kveðið á um það, að heimilum verði ekki sundrað vegna fátœkraflutnings. Hæstv. fjmrh. sagði, að sá flutningur væri ekki daglegt brauð. Það hygg jeg hann viti kannske miklu betur en jeg, en það er þó öllum kunnugt, að þetta kemur alt of oft fyrir ennþá. Og því liggur nú þessi fundarsamþykt fyrir frá mjög fjölmennum fundi, þar sem mættir voru fulltrúar frá ekki færri en fimtán fjölmennum kvenfjelögum þessa bæjar. Ef unnist hefði tími til að fá stuðning þessu máli víðsvegar að, þá efast jeg ekki um, að fleiri áskoranir hefðu komið. En frá stj. Sambands austur-húnvetnskra kvenna hafði jeg skjal í höndum, og vil með leyfi hæstv. forseta lesa nokkuð af því:

„Nokkur kvenfjelög í Sambandi Austur-Húnavatnssýslu hafa tekið ekknastyrksmálið á stefnuskrá sína, og eru þegar hafin samskot í því augnamiði að mynda sjóð, sem á að heita Ekknastyrkssjóður Austur-Húnavatnssýslu. Vjer lítum svo á, að mál þetta sje hið mesta þjóðþrifamál, því að með því verður betur sjeð við því, að börn fátækra mæðra verði að hrekjast frá þeim, eða þau bíði tjón á heilsu sinni vegna skorts í uppvextinum“.

Þessi áskorun hefir legið fyrir þinginu, og í henni felst nokkuð meira en í fundarsamþ. þeirri, sem þáltill. þessi er bygð á. Og jeg skal ganga inn á það, að jeg gæti alveg eins vel felt mig við, að stofnað væri til styrktarsjóðs með aðstoð þess opinbera og sveitarsjóða og svo einstaklingsfrumkvæði, til þess að geta á hverjum tíma, þegar vanda ber að höndum, hlaupið undir bagga. En vitaskuld liggur ekki fyrir að ræða þetta hjer.

Hv. 4. landsk. sagði, að þessir fátæklingar, sem hjer um ræðir, væru ver staddir gagnvart fátækraflutningi heldur en sakamaður, sem fær sjer skipaðan verjanda. Fátæklingurinn getur ekki borið hönd fyrir höfuð sjer, ef búið er að ákveða af fátœkrastjórn, að hann megi ekki lengur ráða sjálfur dvalarstað sínum. Það er einmitt þetta atriði, sem mjer finst svo ranglátt, þegar ekki liggja fyrir þær ástæður, sem rjettlæta það í einstökum tilfellum að taka upp heimili, af því að foreldrið, sem á að annast börnin, er ekki fært um það vegna einhverra galla. Kjarni máls okkar er það, að láta ekki fátækt eina orka því, að það þurfi að fremja þennan himinhrópandi órjett, að taka upp heimili og senda börn í ýmsar áttir og láta móðurina kannske ekki hafa hjá sjer nema eitt barn af mörgum. Auk þess verður hún þá einatt að vinna fyrir sjer og fær þá litlu að ráða um uppeldi barnsins. Þennan órjett hyggjumst við að fá leiðrjettan með því að taka þetta ákvæði inn í lögin, sem till. fer fram á. Enda þótt börnin oft hitti fyrir góð heimili, er það á allra vitorði, að fáir eru sem faðir, en enginn sem móðir. Og það eru hreinustu undantekningar, ef barn kemst í hendur þeirra, sem ganga því í móður stað, þegar það hefir verið svift umönnun móðurinnar.

Hæstv. fjmrh. tók fram, að hann gæti ekki f. h. ríkisstj. sagt neitt um þessa till., og verð jeg að sætta mig við það svar hæstv. ráðh. Hann hjelt því fram, að þótt þessi till. yrði samþ., mundi þessi veiki punktur í fátækralögunum standa eftir sem áður. Jeg er ekki viss um, að þetta sje alveg rjett. Þó að þetta sje ekki bylting, þá er það leiðrjetting. Og leiðrjetting getur oft haft miklu meiri áhrif heldur en menn koma auga á í fyrstu.

Mjer heyrðist hæstv. fjmrh. vera mjer sammála um það, að það væri ekki æskilegt að tvístra heimilum. En hann benti á, að þetta mundi vera frekar sjaldgæft. Honum er e. t. v. kunnugra um þetta en mjer. En eftir því, sem allur sá fjölmenni hópur kvenna, er samþ. fundarályktunina, leit á, er þetta víst ekki mjög sjaldgæft.

Frv. það, sem hæstv. fjmrh. benti á, að væri á ferð í þinginu, taldi hann að ætti að bæta nokkuð úr þessu. Það gerir það ef til vill. En það hefir þann agnúa, sem jeg býst við, að af mörgum verði talinn ljóður á því máli, þar sem á að gera dvalarsveit að framfærslusveit.

Hvað sem líður nú orðalagi þessarar till., þá vona jeg, að hv. þdm. sjái, að hjer er ekki farið fram á neina fjarstæðu, heldur leiðrjettingu. Það kann að vera, að ekki sje nógu djúpt tekið í árinni; en konur verða svo oft að sætta sig við að þokast aðeins hægt og hægt að marki í slíkri baráttu sem þessari, og töldu ekki fært að fara lengra að svo stöddu.

Jeg skal rjett geta þess, að það er hafin víðtæk hreyfing hjer á landi, sem hefir leitt til þess, að kosin var nefnd, sem kallar sig mæðrastyrksnefnd. Sá fjelagsskapur var myndaður í fyrra. Að honum standa þau 15 fjelög, sem að þessari till. standa. Jeg hefi fylstu ástæðu til að vona, að þessi fjelagsskapur beri árangur, þótt hann liggi vitanlega ekki fyrir ennþá. Það er verið að safna sem bestum upplýsingum, og til þess að fá rjetta hugmynd um hið ríkjandi ástand, verður að safna þeim úr öllum áttum, en það tekur alllangan tíma. Það þótti eigi að síður tímabært að koma nú þegar fram með þann vilja, sem liggur í fundarsamþ. og till. sú, sem hjer liggur fyrir, er bygð á, og jeg finn því enga ástæðu til að taka hana aftur.