11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (3682)

139. mál, fátækralög

Halldór Steinsson:

Jeg efast ekki um, að hv. flm. hefir gengið alt það besta til að hreyfa þessu máli og sömuleiðis þeim konum, sem stóðu á bak við, og jeg get verið þakklátur fyrir, að því er hreyft í þinginu. En á hinn bóginn verð jeg að taka undir með þeim, sem hafa fundið galla á till., því að mjer virðist satt að segja, að verði till. samþ. í því formi, sem hún er nú, þá kæmi hún ekki að tilætluðum notum. Það stendur sem sje í till., að skorað er á atvmrh. að gera þær breyt. á fátækralögunum, að útilokað verði, að mæður verði að láta börn sín frá sjer vegna fátækraflutnings. En orðið „fátækraflutningur“ gerir till. að mínu áliti alveg kraftlausa. Það er svo, að það er mjög óalgengt, að fátækraflutningur á foreldrum eigi sjer stað án þess að börnin sjeu flutt með. Og algengt er, að eftir að annað eða báðir foreldrar eru fluttir á sína sveit, fylgja börnin með þeim, og fá þá oft að dvelja hjá þeim.

En svo eru hin tilfellin miklu fleiri, þar sem börnin skiljast frá foreldrunum án þess að nokkur fátækraflutningur eigi sjer stað. Og þó að þessi till. yrði samþ., nær hún alls ekki yfir þau tilfelli.

Þess vegna held jeg, að miklu heppilegra væri, ef till. á að koma að nokkrum verulegum notum, að breyta henni á þann veg, að í stað orðsins „fátækraflutnings“ kæmi „fátæktar“, og hefi jeg hugsað mjer að leggja fram skrifl. brtt. um þetta. Þá grípur till. yfir öll þau tilfelli, þar sem eftir núgildandi lögum er hægt að skilja börn frá foreldrum sínum. Jeg leyfi mjer því að leggja þessa till. fram.